Blak: Kvennaliðið áfram í undanúrslit en karlarnir úr keppni

Tveir bikarleikir í blaki fóru fram um helgina þar sem lið Þróttar Fjarðabyggðar kepptu um sæti í undanúrslitum Kjörísbikarsins. Karlalið Þróttar keppti við KA og tapaði 3-1 og fer því ekki lengra í bikarkeppninni þetta árið. Kvennaliðið mætti liði Blakfélags Hafnarfjarðar, liði úr 2. deild, sem komst áfram í bikarnum. Þróttur vann öruggan sigur 0-3 og eru komnar áfram í undanúrslit bikarkeppninnar. Undanúrslitin og úrslitin fara fram á bikarhelgi Kjörísbikarsins 9.-12. Mars í Digranesi.

Í karlaleiknum var það lið KA sem byrjaði betur og unnu þeir fyrstu tvær hrinurnar örugglega, 25-19 og 25-15. Í þriðju hrinu leiksins tókst Þrótturum hins vegar að vinna 22-25 með mikilli baráttu. Fjórða hrinan einkenndist líka af spennu og baráttu og Þróttarar leiddu hrinuna í fyrstu en KA mönnum tókst þrátt fyrir það að vinna hrinuna 25-20.

Ramses Ballesteros, þjálfari og leikmaður liðsins, segir liðið hafa gert mikið af mistökum í fyrstu tveimur hrinunum. „Lið KA var með sterkar uppgjafir sem gerðu það erfitt fyrir okkur að sækja stig”. Í þriðju hrinunni segir Ramses að liðið hafi fundið taktinn sem vantaði og gert færri mistök og þannig unnið hrinuna. „Í fjórðu hrinu leiddum við 12-17 en við vorum hræddir við að vinna sem gerist stundum, en ef þú efast þá tapar þú,” segir Ramses. Ramses segir tapið vonbrigði en að KA menn séu vel komnir að sigrinum, enn fremur segir þjálfarinn að liðið þurfi að einbeita sér að næsta leik sem er á morgun á móti HK í úrvalsdeildinni.

Í kvennaleiknum mættu Þróttarstúlkur liði Blakfélags Hafnarfjarðar á Ásvöllum. Þróttur byrjaði leikinn betur og hafði yfirhöndina allan leikinn. Fyrsta hrinan fór 15-25. Þróttarstúlkur unnu aðra og þriðju hrinu mjög örugglega 7-25 og 8-25. Allir leikmenn fengu tækifæri til þess að spila. Amelía Rún Jónsdóttir, fyrirliði liðsins, segir leikinn hafa gengið mjög vel og að það hafi verið góð stemning á Ásvöllum. Hún segir Blakfélag Hafnarfjarðar eiga hrós skilið fyrir flotta umgjörð. „Við erum spenntar og vel stemmdar fyrir bikarhelginni, það er alltaf gaman að komast í höllina,” segir Amelía Rún. Hún segir að markmið liðsins á bikarhelginni sé að spila þeirra leik og auðvitað að vinna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.