Blak: Kvennaliðið komið í úrslitakeppnina

Kvennalið Þróttar Neskaupstað hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki. Liðið lauk deildakeppninni með 1-3 sigri á Völsungi á Húsavík í síðustu viku.

Eins og úrslitin bera með sér var Þróttur töluvert sterkari alinn nyrðra, vann fyrstu hrinu 20-25 og aðra 15-25.

Sú þriðja varð nokkuð sveiflukennd. Völsungur komst í 13-8 en Þróttur skoraði þá sex stig í röð og komst yfir 13-14. Austfjarðaliðið var áfram yfir upp í 19-23 en Völsungur minnkaði muninn í 21-23, jafnaði í 24-24 og vann 26-24 eftir upphækkun.

Þróttur var hins vegar sterkari aðilinn í fjórðu hrinunni og vann hana 22-25.

Með sigrinum komst Þróttur í þriðja sæti deildarinnar. Næstu tvö lið þar á eftir eiga bæði leiki inni, en ósigur HK fyrir Aftureldingu í síðustu viku þýðir að HK, sem er í fimmta sæti, getur ekki lengur náð Þrótti að stigum. Álftanes er stigi á eftir Þrótti og á leik inni, en sá er snúinn, gegn Aftureldingu. Ágætar líkur má því telja að Þróttur haldi þriðja sætinu.

Ekki er leikið í Íslandsmótinu um næstu helgi heldur verður úrslitakeppni bikarkeppninnar. Þar mætir Þróttur KA á laugardag í undanúrslitum.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar