Blak: Kvennaliðið tapaði fyrsta leiknum gegn HK
Þróttur tapaði í gærkvöldi fyrsta leik sínum við HK í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki en leikið var í Kópavogi.HK var alltaf á undan í fyrstu hrinu en þó aldrei með mikla forustu. Þróttur gat hins vegar vel unnið hrinuna á æsilegum lokakafla.
Þróttur átti góðan sprett þegar liðið breytti stöðunni úr 20-17 í 21-22. HK náði aftur frumkvæðinu um sinn, komst í 24-23 en Þróttur jafnaði og átti síðan þrisvar möguleika á að klára hrinuna. Það gekk ekki eftir og HK vann hana loks 29-27.
HK vann aðra hrinuna örugglega, 25-17. Liðið var alltaf með tök á henni en um miðbik hennar kom vondur kafli Þróttar þegar HK skoraði sjö stig gegn einu og breytti stöðunni úr 11-7 í 18-10.
Þróttur fór mun betur af stað í þriðju hrinu, komst í 1-7 en HK jafnaði í 13-13 með að skora fimm stig í röð. HK komst síðan yfir en Þróttur jafnaði í 19-19 með að skora fjögur stig í röð. Þar með var allur vindur úr Norðfjarðarliðinu, HK skoraði síðustu sex stigin og vann 25-19 og leikinn 3-0.
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslitin. Ekkert er leikið í úrslitakeppninni í kvöld en karlalið Þróttar spilar á Akureyri annað kvöld en það tapaði fyrir KA í gærkvöldi. Kvennaliðið tekur á móti HK á laugardag.
Í kvöld fer hins vegar farm lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Höttur heimsækir Álftanes í leik sem ræður endanlegri röð liðanna í deildinni. Bæði lið hafa hins vegar tryggt sig í úrslitakeppnina í fyrsta sinn.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða