Blak: Kvennaliðið upp úr botnsætinu

Kvennalið Þróttar kom sér af botni úrvalsdeildar kvenna í blaki með 3-1 sigri á Álftanesi á heimavelli á laugardag. Karlaliðið tapaði fyrir Vestra í oddahrinu.

Þróttarstelpur fóru betur af stað með að vinna fyrstu hrinu 25-23. Þær snéru henni sér í vil þegar þær skoruðu fjögur stig í röð og breyttu stöðunni úr 16-19 í 20-19.

Álftanes vann aðra hrinu 21-25 en Þróttur hafði yfirburði í þriðju hrinu og vann hana 25-16. Þróttur var síðan sterkari í síðustu hrinunni sem þróaðist ekki ósvipað þeirri fyrstu. Þar skoraði Þróttur fjögur stig í röð, breytti stöðunni úr 16-17 í 20-17 og kláraði hana 25-20.

Með sigrinum sendi Þróttur Álftanes á botninn. Þróttarliðið er þar fyrir ofan með sex stig úr átta leikjum. Liðið á leik til góða miðað við Þrótt Reykjavík sem er stigi og sæti ofar.

Karlaliðið tók á móti Vestra á laugardag. Þróttur fór vel af stað, vann fyrstu hrinuna 25-23 og spilaði vel í þeirri annarri sem liðið vann 25-20. Um miðja þriðja hrinu snérust leikar og Vestri vann hana 19-25. Vestfjarðaliðið knúði síðan fram oddahrinu með að rústa fjórðu hrinu 11-25.

Þróttur var í ágætri stöðu í 12-10 í oddahrinunni en Vestri skoraði þá þrjú stig í röð. Þróttur jafnaði en síðustu tvö stigin voru Vestra.

Þróttur fékk stig út úr leiknum en er neðst í deildinni með fimm stig úr tíu leikjum.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar