Blak: Kvennaliðið vann fyrsta heimaleikinn

Kvennalið Þróttar vann fyrsta leik tímabilsins þegar Afturelding kom í heimsókn um helgina. Karlaliðið náði í stig í hörkuleik gegn HK.

Bæði karla og kvennalið Þróttar hófu leik á laugardag með leikjum gegn Aftureldingu. Miklar breytingar hafa orðið á báðum liðum, sex leikmenn kvennaliðsins léku sinn fyrsta meistaraflokksleik og þrír í karlaliðinu. Jannis Jerumanis er nýr þjálfari liðanna.

Kvennaliðið tapaði fyrstu hrinunni 19-25 en vann þá næstu 26-24. Afturelding svaraði með að vinna 19-25 en þá var komið að góðri hrinu Þróttar sem vann hana 25-19.

Afturelding var 7-10 yfir í oddahrinunni en Þróttur tók þá frábæran kafla, komst yfir 13-12 og kláraði hana 15-13. Ana Pimenta var stigahæst með 28 stig og Ester Rún Jónsdóttir skoraði 26.

Kvennaliðið tók síðan á móti HK á sunnudeginum. Ester Rún var þar ekki með vegna meiðsla og munaði mikið um fjarveru hennar. Þróttur átti samt ágætan leik, fyrstu tvær hrinurnar voru jafnar og hefðu getað dottið með Þrótti þótt HK ynni þær báðar 23-25.

Kópavogsliðið vann þriðju hrinuna örugglega, 18-25 og leikinn þar með 3-0. Ana Pimenta var stigahæst með 12 stig en Hrefna Ágústa Marinósdóttir skoraði átta.

Stig gegn HK


Karlaliðið byrjaði líka gegn Aftureldingu en tapaði 0-3. Afturelding vann fyrstu hrinuna eftir upphækkun, 24-26, þá næstu 21-25 og þá þriðju örugglega 14-25. Andri Snær Sigurjónsson, Jose Martin og Javier Mata voru stigahæstir með átta stig.

Liðið náði hins vegar úr stig úr sunnudagsleiknum gegn HK sem tapaðist í oddahrinu. Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar, 25-17 og 25-23 en HK svaraði 21-25 og 20-25. Gestirnir reyndust svo sterkari í oddahrinunni og unnu hana 11-15. Stigahæstur var Miguel Melero með 23 stig, en hann spilaði ekki gegn Aftureldingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.