Blak: Kvennaliðið þarf að keyra suður í oddaleikinn

Kvennalið Þróttar Neskaupstað keyrir í dag suður til Reykjavíkur fyrir þriðja og síðasta leik liðsins gegn HK í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki. Ekki var pláss fyrir hópinn með flugi.


„Við byrjuðum að skoða þetta í byrjun vikunnar og þá voru ekki nógu mörg sæti fyrir heilt lið. Nú er ekkert laust,“ segir Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar.

Öðrum leik liðanna lauk á tíunda tímanum í gærkvöldi og með sigri Þróttar í oddahrinu varð ljóst að þriðja leikinn þyrfti í rimmu liðanna. Þegar Austurfrétt kannaði laus flugsæti í morgun var eitt laust sæti suður, með kvöldvél á föstudegi sem fer í loftið eftir að leikurinn hefst.

Því verða leigðir tveir bílaleigubílar undir hópinn. Annan þeirra þurfti að sækja upp í Egilsstaði og lagði hópurinn af stað á þriðja tímanum. „Við förum í dag því við getum ekki keyrt með leikmenn á leikdegi.“

Mikið álag hefur verið á leikmönnum síðustu vikur en liðið spilaði fyrsta leikinn á mánudagskvöld og annan leikinn í gærkvöldi. Tíu dagar eru frá síðustu útileikjum í deildinni, um páskana var hluti hópsins í landsliðsverkefnum og þar áður var bikarúrslitahelgi.

Í morgun þurfti einnig að finna gistingu sem fannst í Munaðarnesi. Síðasti leggurinn verður farinn í fyrramálið.

Vinna þarf tvo leiki í undanúrslitum til að komast í úrslit. Takist Þrótti það verður Afturelding andstæðingurinn. Fyrsti leikurinn yrði í Mosfellsbæ á þriðjudagskvöld, annar leikurinn í Neskaupstað á fimmtudag (sumardaginn fyrsta) og þriðji leikurinn í Mosfellsbæ á laugardegi. Þar þarf að vinna þrjá leiki svo leikirnir geta orðið fimm ef þarf.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.