Blak: Lið Þróttar kræktu í tvö stig í útileikjum

Lið Þróttar sóttu tvö stig úr fjórum útileikjum um helgina í úrvalsdeildum karla og kvenna.

Karlaliðið byrjaði vestur á Ísafirði gegn Vestra í hörkuleik sem heimamenn unnu eftir oddahrinu. Þróttur vann þó fyrstu tvær hrinurnar, þá fyrstu nokkuð örugglega 20-25 og þeirri annarri snéri liðið sér í vil í lokin og vann 23-25.

Vestri tók síðan næstu tvær, 25-22 og 25-18. Þróttur var á undan í oddahrinunni þar til staðan var 10-11, Vestri skoraði þá tvö stig í röð, tók frumkvæðið og vann eftir upphækkun 17-15.

Karlaliðið spilaði einnig við Þrótt Reykjavík um helgina og tapaði 3-1 eða 25-18, 25-27, 25-20 og 25-17 í hrinum. Liðið er með fjögur stig úr sex leikjum og var þarna að spila við lið sem eru í efri helmingi deildarinnar.

Kvennaliðið spilaði fyrst við Álftanes og tapaði þeim leik í oddahrinu. Úrslit í hrinunum voru 19-25, 25-22, 19-25, 25-16 og 15-9. Litlar sveiflur voru innan hrinanna.

Seinni leikurinn var, líkt og hjá körlunum, gegn Þrótti Reykjavík og tapaðist 3-0 eða í hrinum 25-22, 25-20 og 25-18. Kvennaliðið er með þrjú stig úr fimm leikjum.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar