Blak: Markmiðið var að komast í úrslitin

Þróttur Fjarðabyggð tapaði 0-3 fyrir Hamri í úrslitaleik bikarkeppninnar í blaki um helgina. Þjálfari liðsins segir framfarir í leik þess en langbesta lið landsins hafi reynst of sterkt á þessum degi.

Þrótti gekk ágætlega í fyrstu hrinu upp í 14-14, að Hamar breytti stöðunni í 19-14 og vann síðan hrinuna 25-19. Seinni tvær hrinurnar leiddi Hamar frá upphafi til enda, þrátt fyrir ágæta kafla Þróttar inn á milli og vann þær 25-17 og 25-16.

Hamar hefur verið besta lið landsins síðustu ár og var þetta fjórði bikarmeistaratitill þess í röð. Liðið er líka efst í Íslandsmótinu. Á sama tíma var Þróttur að komast í bikarúrslitin í annað skiptið í sögu félagsins. Þegar horft er á leikinn má því álykta sem svo að Þróttur hafi einfaldlega verið númeri of lítið að þessu sinni.

„Ég held það sé fullkomið mat. Hjá þeim eru flestir á aldrinum 26-33 ára meðan flestir okkar leikmanna eru um tvítugt. Það sást í leiknum. Ef við ætlum að eiga möguleika gegn því þá þarf allt að ganga upp hjá okkur og Hamar að eiga lakan dag. Þeir eiga ekki tvo slíka í röð.

Ég er samt mjög stoltur af mínu liði. Góðu kaflarnir okkar gegn Hamri eru alltaf að verða lengri. Það er jákvætt. Þessi leikur var dropi í reynsluhafið og við byggjum betur ofan á hann með hvernig við mætum þessu langbesta liði landsins framvegis. Við náðum markmiðinu um að komast í úrslitin, allt eftir það var bónus,“ segir þjálfarinn Atli Freyr Björnsson.

Fúlastur yfir að samherjarnir komu ekki boltanum yfir


Þróttur átti sennilega glæsilegustu tilþrif leiksins. Undir lok annarrar hrinu henti Andri Snær Sigurjónsson sér á eftir bolta á leið út fyrir hliðarlínu, yfir varamannabekk Þróttar og tókst að bjarga honum. Andri Snær spilaði annars lítið um helgina vegna handarmeiðsla.

„Hann mætti á æfingu í gær. Ég spurði það hvernig hann hefði það og hann svaraði að höndin væri fín en hann væri að drepast í mjöðminni eftir lendinguna. Hann var fúlastur yfir að við skyldum ekki ná boltanum yfir fyrst hann lagði þetta á sig! Hann er frábær í baráttu og varnarleik og gefst aldrei upp. Það má reyndar segja um alla í liðinu, menn bættu og börðust fyrir öllu.“

Krossumferðir úrvalsdeildar


Þétt er spilað í blakinu þessa dagana en karlaliðið spilar um helgina við Aftureldingu. Í janúar lauk tvöfaldri umferð efstu deildar karla og kvenna. Síðan skiptust liðin í tvennt. Hjá körlunum eru átta lið og spila annars vegar fjögur efstu liðin og hins vegar þau fjögur neðstu innbyrðis um sæti fyrir úrslitakeppnina sem þau taka öll þátt í. Þróttur varð í fjórða sæti deildarinnar og á möguleika að vinna sig ofar sem ætti að tryggja auðveldari andstæðing í úrslitakeppninni, en það fellur aldrei niður í neðri krossinn sem myndi þýða tap á heimaleikjarétti.

„Við settum okkur tvö markmið þegar leið á haustið, annars vegar að komast í bikarúrslitin, hins vegar að vera í efri krossinum. Bæði þau markmið hafa nú náðst. Við settumst niður aftur í gær og settum okkur ný markmið um að reyna að enda eins ofarlega í krossinum og kostur er.“

Hjá konunum eru sjö lið, þrjú enduðu í efri krossi en fjögur í þeim neðri. Efsta lið deildarinnar mun sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og efsta liðið í neðri krossinum getur náð sér í heimaleikjarétt.

Kvennaliðið endaði í neðsta sæti deildarinnar en styrkti sig í janúar þegar þær Ester Rún Jónsdóttir og Maria Jimenez snéru aftur til félagsins. „Maria er frábær karakter sem yngri leikmenn líta mikið upp til og Ester er afar öflugur leikmaður,“ segir Atli.

Kvennaliðið spilar við Álftanes annað kvöld og aftur um helgina.

Mynd: Blaksamband Íslands/Mummi Lú


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar