Blak: Matthías þjálfar kvennalandsliðið
Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar í Neskaupstað, hefur verið ráðinn þjálfari A-landsliðs kvenna í blaki. Hann tekur við af Apostol Apostolov, sem þjálfaði Þróttarliðið á undan Matthías en sá tekur við karlalandsliðinu.
Matthías er á sínu öðru ári sem þjálfari meistaraflokks Þróttar en hann þjálfaði áður yngri flokka félagsins. „Ég er búinn að vera að þjálfa meira og minna síðan ég var 16 ára meðfram því að vera leikmaður", er haft eftir Matthías, sem kom heim úr námi frá Danmörku fyrir þremur árum, á vef Blaksambandsins.
Í Danmörku spilaði Matthías með þremur félögum í Óðinsvéum en hann bjó þar í 6 ár. Fyrst spilaði hann með Fortuna Odense og þá DHG í 1. deildinni. Frá árinu 2006 lék Matthías sem frelsingi hjá Marienlyst og vann liðið fjóra titla á tveimur árum. Leiktímabilið þar á eftir (2007-2008) var Matthías kosinn besti frelsinginn í dönsku deildinni og liðið varði bikarmeistaratitilinn og vann dönsku deildina og varð Danmerkurmeistari. Samhliða spilamennsku í Danmörku þjálfaði Matthías unglingalið stúlkna hjá Fortuna Odense og eru nokkrir leikmenn á fullu nú í dönsku deildinni.
„Ég er ánægður með að fá þetta tækifæri og tel mig tilbúinn í verkefnið. Framundan eru gríðarlega spennandi og skemmtileg verkefni sem alla langar til að taka þátt í og ég ætla að leggja mitt að mörkum til að ná góðum árangri með liðið,“ segir Matthías en bæði landslið Íslands taka þátt í undankeppni fyrir HM 2014 í vor og fara á Smáþjóðaleika í Luxemborg.
Á næstu vikum tilkynnir Matthías stóran úrtökuhóp fyrir kvennalandsliðið og reiknar hann með því að liðið verði skipað ungum og efnilegum leikmönnum í bland við eldri og reyndari.
Þróttarliðið er efst í fyrstu deild kvenna eftir 3-0 sigur á KA um síðustu helgi. Karlaliðið tapaði á móti sínum leik 2-3.