Blak: Öruggur sigur og svekkjandi tap í Neskaupstað

Í gær fóru fram tveir leikir í úrvalsdeild karla og kvenna í blaki í Neskaupstað. Leikirnir áttu að fara fram á laugardaginn en þeim var frestað vegna veðurs. Karlalið Þróttar Fjarðabyggðar tók á móti liði Stálúlfs og unnu leikinn 3-0 með yfirburðum. Kvennalið Þróttar Fjarðabyggðar tók á móti liði Álftanes sem var fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar en leikurinn endaði í oddahrinu og fór 3-2 fyrir Álftanes.

Fyrri leikurinn var viðureign Þróttar Fjarðabyggð og Stálúlfs í úrvalsdeild karla.
Þróttarar voru sigurstranglegri fyrir leikinn, en Stálúlfur situr í neðsta sæti deildarinnar með aðeins einn unninn leik.
Þróttarar áttu ekki í vandræðum með Stálúlfa í fyrstu hrinunni og unnu hana öruggt 25-13. Það sama má segja um aðra hrinu sem endaði 25-17. Í þriðju hrinunni náðu Stálúlfar að halda í við Þrótt en hrinan endaði þrátt fyrir það með 25-21 sigri Þróttar. Sigurinn var nokkuð öruggur og töluvert um skiptingar hjá Þrótti þar sem yngri leikmenn fengu að spreyta sig. Stálúlfar mættu aðeins með 6 leikmenn í leikinn og áttu því enga varamenn á bekknum.

Stigahæstir heimamanna voru Miguel Angel Ramos með 17 stig og Ramses Ballesteros með 9 stig. Stigahæstir gestanna voru Austris Bukovskis með 16 og Alexander Stefánsson bætti við 8 stigum. Með þessum sigri komust Þróttarar upp fyrir HK og sitja nú í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig.

Stelpurnar tóku á móti liði Álftanes sem situr í öðru sæti deildarinnar en Þróttur Fjarðabyggð í því fimmta. Sá leikur var öllu meira spennandi og byrjuðu Þróttar Konur mjög sannfærandi og náðu sigri í fyrstu hrinu með minnsta mun 26-24. Næstu tvær hrinur voru hnífjafnar og liðin skiptust á að hafa betur, önnur hrina fór 22-25 og sú þriðja 25-23. Mikil spenna, löng rallý og flott tilþrif einkenndu leikinn. Lið Álftaness komu sterkari til leiks í fjórðu hrinunni og náðu með sigri 18-25 að knýja fram oddahrinu sem þær unnu svo sannfærandi 6-15 og þar með leikinn 2-3.

Þróttur Fjarðabyggð fær eitt stig úr leiknum og sitja sem fastast í fimmta sætinu með 14 stig. Álftanes fór heim með 2 stig eftir leikinn og situr áfram í öðru sæti deildarinnar.

Stigahæstar heimastúlkna voru María Jimenez Gallego með 18 stig og Paula Miguel de Blaz með 16. Stigahæstar hjá gestunum voru Michelle Traini með 23 stig og þær Simona Usic og Marisa Punzi báðar með 9.

Mynd: Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar