Blak: Ósigur í oddahrinu gegn Völsungi

Kvennalið Þróttar í blaki tapaði í gær fyrir Völsungi, 3-2 eftir oddahrinu í úrvalsdeild kvenna í blaki en leikið var á Húsavík. Þróttur á enn ágæta möguleika á að vinna sig upp um sæti áður en kemur að úrslitakeppninni.

Völsungur var mun sterkari í fyrstu hrinu og vann hana 25-19. Þróttur vann aðra hrinuna 23-25. Lokatölurnar endurspegla þó ekki að fullu hversu góð tök Þróttur hafði á henni en Völsungur komst aldrei yfir í henni.

Þróttur spilaði áfram vel og vann þriðju hrinu 21-25. Fjórða hrinan var hins vegar eign Völsungs sem vann 25-15 og náði þannig í oddahrinu. Þróttur komst tvisvar stuttlega yfir í henni en annars hafði Völsungur tökin og vann 15-12.

En þótt leikurinn hafi tapast fékk Þróttur dýrmætt stig út á oddahrinuna. Liðið er að reyna að vinna sig upp fyrir Þrótt Reykjavík og Álftanes fyrir úrslitakeppnina. Lykilatriði þar er að vinna Þrótt Reykjavík í lokaleiknum sem leikinn verður eftir rúma viku og treysta á að Álftanes vinni ekki Völsung á sama tíma.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar