Blak: Sextíu stig skoruð í annarri hrinu Þróttar gegn HK
Karlalið Þróttar lagði HK í úrvalsdeildinni í blaki um helgi, 1-3. Upphækkun þurfti í tveimur hrinum til að fá úrslit. Kvennaliðið tapaði hins vegar 3-0. Leikið var í Kópavogi.Baráttan milli karlaliðanna byrjaði strax í fyrstu hrinu. HK byrjaði betur og var yfir 13-11 þegar Þróttur tók við sér og komst í 14-16. Þróttur missti þá forustu niður, var yfir 17-19 en missti það niður í 20-19. HK var í góðri stöðu til að klára hrinuna, 23-22 en Þróttur reyndist seigari í lokin og vann 26-28.
Önnur hrinan var æsileg enda fór svo að í henni voru skoruð 60 stig. Þróunin var svipuð framan af og þeirri fyrri. HK byrjaði betur, var yfir 11-9 en þá skoraði Þróttur fjögur stig í röð. Þróttur leiddi upp í 15-17 að HK hefndi með fjórum stigum í röð.
HK var í færi að klára hrinuna í stöðunni 24-21 en Þróttur jafnaði í 24-24. Í lokin hafði HK tvö tækifæri til að vinna hrinuna en Þróttur þrjú. Kópavogsliðið vann loks 31-29.
Þróttur var heldur lengur að snúa þriðju hrinunni en þeim fyrri en hélst á forustunni þegar hún náðist. HK var yfir 18-17 en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð og vann 20-25, eftir að hafa skorað síðustu fjögur stigin. Þróttur hafði síðan tökin á fjórðu hrinu og vann 21-25.
Með sigrinum komst Þróttur upp í 5. sæti. Liðið hefur 15 stig úr 11 leikjum og berst við HK og KA um fjórða sætið sem veitir rétt í umspil í efri hluta deildarinnar.
Erfiður dagur hjá kvennaliðinu
Kvennaliðið var í meiri vandræðum. Í fyrstu hrinu gerði liðið vel í að komast yfir 17-18 en HK vann þó 25-20. Í annarri hrinu áttu Norðfjarðarstelpur aldrei möguleika, HK komst strax í 10-2 og vann 25-17. Þriðja hrinan var sú besta hjá Þrótti. Liðið var yfir 16-18 en HK skoraði þá fimm stig í röð og vann loks 25-22.
Lucia Martin Carrasco og Heiðbrá Björgvinsdóttir voru atkvæðamestar hjá Þrótti. Samkvæmt tölfræðigreiningu leiksins lá munurinn milli liðanna í sóknarleiknum, HK skoraði 38 gegn 21 stigi úr smössum. Þróttur er í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig úr níu leikjum.