Blak: Sleppur við leikbann eftir rifrildi við dómara

Andri Snær Sigurjónsson, fyrirliði karlaliðs Þróttar í blaki, þarf ekki að sæta leikbanni eftir að orðaskipti við dómara leiks liðsins gegn KA í síðasta mánuði. Blaksambandið sjálft fór fram á aganefnd þess færi ofan í kjölinn á samskiptunum.

Samkvæmt úrskurði aganefndarinnar skilaði aðaldómari leiksins skýrslu um að Andri Snær hefði ásakað hann um að hagræða úrslitum leiksins til að hagnast á veðmálum. Dómari refsaði Andra Snæ á leikstað með rauðu spjaldi.

Á fundi eftir leikinn taldi aganefndin málinu þar með lokið. Dómaranefnd sambandsins var ekki á sama máli og skaut því til áfrýjunarnefndar sem vísaði málinu frá. Þar með var komið að Blaksambandinu sjálfu sem kærði málið aftur, krafist þess að leikmaðurinn yrði dæmdur í tímabundið leikbann auk þess ásakanirnar yrðu rannsakaðar

Í svari Andra Snæs segir að fyrri úrskurður aganefndarinnar eigi að vera bindandi og ekki standist að refsa mönnum tvisvar fyrir sama sakarefni. Hann segist harma upplifun dómarans en hana vera ýkta um orð sem fallið hafi í hita leiksins. Ekki sé rétt að þjálfari Þróttar hafi orðið vitni að orðaskiptunum.

Málið var þarf með komið öðru sinni til aganefndarinnar sem taldi rétt að nýta ákvæði um rétt til að taka hana til meðferðar þótt hún hefði borist eftir kærufrest. Kærunefndin hafði hins vegar takmörkuð gögn til að vinna úr. Orðaskipti var ekki hægt að greina af myndbandsupptöku og frekari gögn eða vitnisburðir fengust ekki frá heimaliðinu KA, þótt eftir því væri leitað.

Andri Snær var því sýknaður og þarf ekki að sæta leikbanni því hann neiti ásökunum og gögn skorti til að styðja þær.

Aganefndin ítrekar hins vegar að hafi þau ummæli, sem lýst var í skýrslu dómara, verið viðhöfð þá séu þau vítaverð og ekki bara til þess fallin að kasta rýrð á dómara heldur skaða blakíþróttina.

KA vann leikinn í oddahrinu.

Úr leik hjá Þrótti. Myndin tengist fréttinni ekki beint.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.