Blak: Stelpurnar töpuðu í oddahrinu
Kvennalið Þróttar töpuðu fyrsta leik sínum við HK í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki í Kópavogi í gærkvöldi í oddahrinu í afar sveiflukenndum leik.
Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinu upp í 10-11. Þróttur skoraði þá fimm stig í röð og fyrr en varði var staðan orðin 11-18. Þeirri forustu hélt Norðfjarðarliðið út hrinuna og vann hana 11-18.
HK hafði algjöra yfirburði í annarri hrinu, komst í 9-2 og síðan 19-6 en hún endaði 25-17.
Liðin skiptust þrisvar sinnum á forustunni í þriðju hrinu. HK byrjaði betur og komst í 7-3 en Þróttur snéri henni sér í hag í 8-10. Þróttur var enn yfir 11-13 en þá skoraði HK þrjú stig í röð. Jafnt var 18-18 en þá hrundi leikur Þróttar, HK skoraði fimm stig í röð og vann hrinuna loks 25-20.
Ekki blés byrlega fyrir Þrótt í byrjun fjórðu hrinu, sem liðið þurfti að vinna, en HK komst í 5-0. Þróttur svaraði með fjórum stigum í röð en HK tók þá aðra rispu og komst í 13-9.
Aftur komu fjögur stig frá Þrótti í röð sem jöfnuðu leikinn áður en liðið komst í 14-15. Jafnt var 19-19 en Þróttur skoraði þá þrjú stig í röð. Þeirri forustu hélt liðið og vann 21-25.
HK skoraði fyrstu þrjú stigin í oddahrinunni en Þróttur beit í skjaldarrendur og komst yfir 7-8. Þá hrökk allt í baklás. HK átti næstu fjögur stig og þótt Þróttur skoraði eitt komu aftur fjögur stig heimaliðsins í röð sem tryggðu 15-9 sigur.
Kvennaliðin mætast aftur í Neskaupstað á morgun. Karlaliðið, sem í gær tapaði sínum fyrsta leik, mætir HK öðru sinni á Norðfirði í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15.