Blak: Tap á heimavelli og sigur á útivelli
Í gær mættust Þróttur Fjarðabyggð og Þróttur Reykjavík í úrvalsdeild kvenna í blaki í Neskaupstað í fyrstu krossumferð deildarinnar. Leikurinn fór 1-3 fyrir gestunum. Karlalið Þróttar Fjarðabyggðar fór suður og kepptu á móti HK í úrvalsdeild karla í blaki. Leikurinn endaði með 2-3 sigri Þróttar.
Það var góð stemning í íþróttahúsinu í Neskaupstað í gær þegar kvennalið Þróttar Fjarðabyggðar mætti Þrótti Reykjavík í úrvalsdeild kvenna. Fjöldi fólks mætti á leikinn enda ágæt tilbreyting eftir skrýtna viku í Neskaupstað.
Heimaliðið byrjað af miklum krafti og vann fyrstu hrinu auðveldlega 25-16.
Í annarri hrinu hrukku gestirnir hins vegar í gang og unnu næstu þrjár hrinur naumlega sem voru jafnar og spennandi. Staðreyndin 1-3 tap en það breytti engu þar sem bæði liðin sitja sem fastast í sínum sætum í deildinni. Þróttur Fjarðabyggð í 6. sæti og Þróttur Reykjavík í 7. og síðasta sæti deildarinnar. Stelpurnar mæta því Aftureldingu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir páska.
Stelpurnar spiluðu í dag án þjálfaranna sinna þar sem þeir eru báðir leikmenn í karlaliðinu, sem spiluðu í gær útileik sem frestaðist vegna verður og aðstæðna hér. Hlöðver Hlöðversson hljóp í skarðið og stýrði stelpunum í dag. Margir ungir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum.
Stigahæstar heimastúlkna vour Ester Rún Jónsdóttir með 17 stig og Paula Miguel de Blaz með 14. Hrefna Ágústa Marinósdóttir var með 9 stig og er búin að standa sig mjög vel í síðustu 2 leikjum, þar sem hún fengið stærra hlutverk í liðinu aðeins 15 ára gömul. Hún var eftir leikinn í dag valin Þróttari leiksins og fékk gjafabréf frá Fjarðasport.
Stigahæstar í liði gestanna voru þær Nicole Hannah Johansen og Irellis Maribel IIarraza, báðar með 13 stig.
Kvennalið Þróttar Fjarðabyggðar á einn leik eftir í krossumferðinni. Leik við Völsung sem er tvisvar búið að fresta vegna veðurs. Þriðja tilraun verður gerð á þriðjudaginn til að heimsækja Húsvíkinga, en úrslit þessa leiks munu ekki hafa áhrif á stöðu liðanna í neðra krossspilinu.
Karlalið Þróttar spilaði leik gegn HK á útivelli í gær sem var spennandi og einkenndist af mikilli baráttu. Liðin skiptust á að vinna hrinur og leikurinn endaði með sigri Þróttar í oddahrinu. Oddahrinan fór í upphækkun og lauk með sigri Þróttar 15-17. Það þýðir að eftir krossumferð er karlalið Þróttar í 5. sæti deildarinnar og mætir liði Vestra í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir páska.
Ljósmynd Sigga Þrúða. Helena Kristjánsdóttir leggur upp fyrir miðjusmass