Blak: Tap á móti Aftureldingu
Í gær fór fram fyrri viðureign Þróttar Fjarðabyggð og Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna, en keppt er um sæti í undanúrslitum. Leikurinn var spennandi og sveiflukenndur en lauk með 1-3 sigri Aftureldingar.
Leikurinn var sveiflukenndur en bæði lið spiluðu vel og áttu góða spretti. Mikið var um ása í leiknum en einnig töluvert um uppgjafa mistök. Afturelding vann fyrstu hrinuna 17-25. Þróttarar komu sterkari til leiks í annarri hrinu og unnu hana 25-22. Afturelding vann næstu tvær hrinur nokkuð örugglega, 16-25 og 17-25, og tryggðu sér þar með 1-3 sigur.
Stigahæstar hjá Þrótti voru Ester Rún Jónsdóttir og Paula Miguel de Blaz, báðar með 12 stig. Stigahæstar hjá gestunum voru Daníela Grétarsdóttir með 14 stig, þar af 9 ása, og Tinna Rut Þórarinsdóttir með 13 stig. Að leik loknum var Paula Miguel valin Þróttari leiksins og fékk gjafabréf frá Fjarðasport.
Liðin mætast aftur á laugardag að Varmá og þá þarf Þróttur sigur til að knýja fram gullhrinu og eiga möguleika á sætinu í undanúrslitunum.
Mynd: Sigga Þrúða. Daníela Grétarsdóttir (Aftureldingu) stigahæst í leiknum og Paula Miguel de Blaz , Þróttari leiksins, berjast um boltann við netið.