Orkumálinn 2024

Blak: Þægilegur sigur á Fylki

Þróttur landaði sínum fyrsta sigri í úrvalsdeild karla í blaki á árinu um helgina þegar liðið lagði Fylki 0-3. Þjálfari liðsins segir liðið hafa framfylgt því vel sem lagt var með upp fyrir leikinn.

Liðin spiluðu í Árbæ á sunnudag en leiknum var frestað um dag vegna ófærðar eystra. Þróttur vann leikinn 0-3 eða 14-25, 21-25 og 12-25 í hrinum.

„Leikurinn gegn Fylki var nokkuð sérstakur því við áttum von á einbeittara og harðara liði en raunin varð. Að sama skapi þá vorum við með þrjú atriði sem við ætluðum að leggja áherslu á í leiknum og við gerðum þau vel nær allan tímann, nema á kafla í annarri hrinu þar sem við gáfum eftir en Fylkir bætti í og náði að gera leikinn jafnan.

Það er hægt að segja að leikurinn hafi verið þægilegur en ég held að Fylkir hafi ekki átt góðan dag og eigi meira inni en þessi úrslit sýna.

Ég er ánægður með leikmenn mína því þeir gerðu allt sem hægt var að ætlast til af þeim í vikunni og voru einbeittir allan leikinn. Við vorum með níu leikmenn sem stóðu sig allir vel, sérstaklega þeir tveir sem komu af bekknum til að fríska upp á liðið og tryggðu að einbeitingin héldist,“ segir Gonzalo Garcia þjálfari Þróttar.

Þetta var fyrsti sigur Þróttar eftir að keppni hófst á ný eftir samkomubann en liðið náði að vinna Fylki á heimavelli í haust áður en það var sett.

„Við hefðum viljað vera komnir með fleiri stig en þetta er staðan og það er mikilvægt að ná sex stigum af liði sem við eigum von á að keppa við um sæti í úrslitakeppninni. Þetta hvetur leikmenn okkar áfram en markmið tímabilsins er enn óbreytt, að taka framförum leik fyrir leik og aðlaga leik okkar eftir hverjir mótherjarnir eru. Þannig nær liðið að sýna það sem ég veit að í því býr.“

Garcia segir að sigurinn sé gott veganesti í næstu leiki en liðið tekur á móti KA á morgun. „KA er með afar sterka blokk og öflugt lið sem keppir við Hamar um efsta sæti deildarinnar. Við leggjumst yfir það fyrir hvern leik hvert við þurfum að senda boltann til að skora stig. Leikurinn annað kvöld er kjörið tækifæri til að sýna þá góðu takta sem við höfum sýnt á æfingum í keppni.

Við eigum síðan Álftanes í framhaldinu. Sá leikur er trúlega í samkeppninni um sæti í úrslitakeppninni en við vitum að við eigum góða möguleika á að vinna KA og reynum að nýta okkur það.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.