Blak: Þrótti mistókst að vinna sig upp um sæti
Þrótti mistókst að vinna sig upp um sæti í krossspili úrvalsdeildar karla í blaki. Liðið tapaði hörkuleik gegn Vestra á föstudagskvöld sem endaði í ótrúlegri oddahrinu.Þróttur átti fína fyrstu hrinu og vann hana 23-25, þar sem Vestri minnkaði muninn með góðum kafla í blálokin. Vestri vann síðan aðra hrinuna 25-23 eftir að hafa komist yfir um miðbik hennar.
Vestri var með frumkvæðið í þriðju hrinu en Þróttur snéri henni sér í vil með mögnuðum endaspretti. Norðfjarðarliðið var undir 23-20 en skoraði þá fjögur stig í röð og vann 24-26.
Vestri var sterkari aðilinn í fjórðu hrinu. Þróttur náði að vinna niður forskotið og jafna í 22-22 en Vestri kláraði hana 25-23 og knúði þannig fram oddahrinu, sem varð sturluð.
Til að vinna venjulega hrinu í blaki þarf að skora 25 stig og ná tveggja stiga forskoti. Í oddahrinu þarf að skora 15 stig með tveggja stiga forskoti. Ef það tekst ekki er haldið áfram og spiluð svokölluð upphækkun þar til annað liðið nær tveggja stiga forskoti.
Lokatölur þessarar oddahrinu urðu 25-23, sem þýðir að hún varð jafn löng og venjuleg hrina. Þróttur bjargaði sér fyrir horn í lok venjulegrar hrinu, var undir 13-10 en jafnaði í 14-14. Meðan hinni löngu upphækkun stóð fengu bæði lið tækifæri til að klára leikinn.
Mæta væntanlega KA
Í gær spilaði Þróttur svo gegn Hamri í Hveragerði en liðin mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar nýverið. Hamar hefur verið besta lið landsins síðustu ár og var einnig sannfærandi í gær. Þróttur spilaði best í fyrstu hrinu, var þar yfir 15-19 en missti það niður í 22-20 og Hamar vann hana 25-23. Hamar hafði síðan góð tök á annarri hrinu sem liðið vann 25-20 og yfirburði í þeirri þriðju sem endaði 25-18.
Úrvaldeildirnar í blaki eru í vetur spilaðar þannig að fyrst mættust öll átta liðin en síðan var deildinni skipt í efri og neðri hluta þar sem leikið er um endanlega stöðu í deildinni. Þróttur varð í fjórða sæti deildarinnar og hefði með sigri á Ísafirði getað náð þriðja sætinu af Vestra. Einu stigi munar nú á liðunum og Þróttur búinn með sína leiki. Líklega mætir liðið KA, sem er efst í neðri hlutanum, í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.
Kvennalið Þróttar spilar gegn Völsungi á Húsavík á miðvikudagskvöld.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða