Blak: Þróttur á toppinn í efstu deild kvenna

Kvennalið Þróttar trónir á toppi Mizuno-deildar kvenna í blaki eftir að hafa lagt Þrótt Reykjavík tvisvar að velli um helgina. Karlaliðið er í öðru sæti en tapaði óvænt heima fyrir neðsta liðinu.


Leikið var í Neskaupstað laugar- dag og sunnudag. Kvennaliðið vann Þrótt Reykjavík 3-0 á laugardag eða 25-20, 25-17 og 25-10 í hrinum. María Rún Karlsdóttir var stigahæst með 13 stig.

Í gær vann kvennaliðið 3-1 eða 25-13, 23-25, 25-13 og 25-13. Ana Vidal var stigahæst með 19 stig og María Rún skoraði 18.

Þróttur er efstur í deildinni með 24 stig úr 10 leikjum en bæði HK og Afturelding geta skotist upp fyrir þar sem þau lið hafa aðeins leikið sjö leiki. Þróttur lýkur vertíðinni fyrir jól með tveimur útileikjum gegn HK um næstu helgi.

Karlaliðið hefði getað náð toppsætinu um helgina en tapaði 1-3 fyrir sameiginlegu liði Þróttar Reykjavík og Fylkis á föstudagskvöld. Hrinurnar fóru 21-25, 25-10, 16-25 og 20-25. Hlöðver Hlöðversson skoraði 16 stig fyrir Þrótt.

Seinni leikinn vann Þróttur í oddahrinu. Fyrsta hrinan fór 29-31 sem er fáheyrt skor. Önnur hrina fór 25-19, sú þriðja 21-25, fjórða 25-22 og oddahrinan 15-12. Atli Fannar Pétursson skoraði 16 stig en Hlöðver 15. Bróðir hans, Róbert Karl, átti stórleik í liði gestanna í gær og skoraði 30 stig.

Lið Þróttar er í öðru sæti deildarinnar með 15 stig úr 8 leikjum. Stjarnan er efst með 17 stig úr 8 leikjum og HK í því þriðja með 14 stig úr 7 leikjum. Liðið á eftir tvo leiki gegn HK í Kópavogi í næstu viku áður en jólafríið skellur á.

Í fyrstu deild karla í körfuknattleik heldur Höttur efsta sætinu eftir 78-75 sigur á Hamri á Egilsstöðum á fimmtudag. Höttur var með nær örugga forustu allan leikinn, meðal annars tæplega 20 stiga forskot í þriðja leikhluta, en hleypti gestunum úr Hveragerði óþægilega nærri í lokin.

Aaron Moss átti góðan leik og náði þrefaldri tvennu, skoraði 27 stig, tók 15 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Síðasti leikur liðsins fyrir jól verður gegn ÍA á Akranesi á föstudagskvöld.

Þá er rétt að bæta við að lið Hattar er komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar eftir 78-87 sigur á B liði Njarðvíkur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.