Blak: Þróttur á toppinn í úrvalsdeild kvenna
Þróttur er kominn í efsta sætið í úrvalsdeild kvenna eftir leiki helgarinnar og frábært gengi frá áramótum. Karlaliðið Þróttar tryggði sér sæti í undanúrslit bikarkeppninnar.
Kvennaliðið spilaði tvo leiki um helgina, gegn Fylki á föstudagskvöld og Grundarfirði á laugardag. Liðið átti ekki í neinum vandræðum með Fylki og vann leikinn 0-3 eða 10-25, 10-25 og 18-25 í leik sem tók aðeins um 50 mínútur.
Leikurinn í Grundarfirði var ögn jafnari en hann vann Þróttur 1-3 eða 15-25, 14-25, 25-19 og 15-25.
Með sigrinum komst Þróttarliðið í efsta sæti deildarinnar með 31 stig en það hefur verið á miklu skriði eftir áramót. Þróttur hefur eins stigs forskot á Aftureldingu og tveggja stiga á HK en hefur leikið leik meira.
Þróttur á eftir að heimsækja Aftureldingu fyrstu helgina í apríl. Vinnist sá leikur er möguleiki á að halda efsta sætinu sem tryggir heimaleikjarétt í úrslitakeppninni, sem löngum hefur reynst dýrmætur. HK og Afturelding eiga hins vegar leiki til góða sem þau ættu að vinna.
Karlaliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með 1-3 sigri á Þrótti R./Fylki. Reykjavíkurliðið vann fyrstu hrinuna 25-22 en í kjölfarið fylgdu þrjár hrinur Þróttar, 18-25, 21-25 og 18-25.
Úrslitahelgi bikarsins verður 19. og 20. mars næstkomandi. Bæði lið Þróttar mæta þar liðum Stjörnunnar í undanúrslitum.