Blak: Þróttur afgreiddi Völsung
Þróttur Neskaupstað heldur toppsætinu í Mizuno-deild kvenna í blaki eftir 3-0 sigur á Völsungi í Neskaupstað í gærkvöldi. Framundan eru erfiðir leikir gegn Aftureldingu sem að líkum ráða hvort liðið verður deildarmeistari.Völsungur er á sínu öðru tímabili í efstu deild en hefur miðað við það átt ágætis tímabil og haft fjórða sætið, sem veitir sæti í úrslitakeppninni, í seilingarfjarlægð.
Gestirnir byrjuðu leikinn í gærkvöldi betur og komust í 7-12. Þróttur svaraði þá fyrir sig og jafnt var á flestum tölum upp í 20-20. Þá tók Þróttur aftur á rás og vann hana 25-21.
Þróttur hafði síðan yfirburði í annarri og þriðju hrinu og vann þær 25-14 og 25-20. Paula Gomez var stigahæst hjá Norðfjarðarliðinu með 19 stig og Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 10.
Þróttur er í efsta sæti deildarinnar með þriggja stiga forskot á Aftureldingu. Liðin mætast í Neskaupstað á föstudagskvöld en heimsóknin verður síðan endurgoldin í Mosfellsbæ viku síðar.
Líkur eru á að þessir tveir leikir ráði hvort liðið verður deildarmeistara en að þeim loknum á Þróttur aðeins tvo leiki eftir á heimavelli gegn Þrótti Reykjavíkur sem lítið hefur gengið hjá í vetur.
Úr leiknum í gær. Mynd: Blakdeild Þróttar