Blak: Þróttur getur landað titlinum í kvöld

Kvennalið Þróttar getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki í kvöld með sigri á Aftureldingu í þriðja leik liðanna í Neskaupstað. Þróttur vann annan leikinn í Mosfellsbæ á miðvikudag 1-3.

Leikurinn var jafnari heldur en lokatölurnar gefa til kynna og nokkuð sveiflukenndur.

Afturelding byrjaði fyrstu hrinuna betur og komst í 7-3 en eftir að staðan var 8-7 komu fimm stig Þróttar í röð sem snéri hrinunni gestunum vil.

Norðfjarðarliðið hafði frumkvæðið upp í 18-18. Afturelding komst yfir 21-19 og var yfir 23-21 en þá komu fjögur stig Þróttar í röð sem kláruðu hrinuna.

Afturelding hafði yfirburði framan af annarri hrinu og var yfir 14-7. Þróttur jafnaði 19-19 og hélt jöfnu fram í 21-21. Fjögur stig heimaliðsins í röð réðu þar úrslitum.

Þróttur komst í 0-6 í þriðju hrinu en Afturelding svaraði með átta stigum í röð. Afturelding hafði frumkvæðið eftir að staðan var 12-12 upp í 23-23 að tvö stig Þróttar í röð gerðu út um leikinn.

Í fjórðu hrinunni var mátturinn úr Mosfellsbæjarliðinu, Þróttur var yfir 6-13 um miðja hrinu og kláraði hana 17-25.

Haley Hampton var stigahæst Aftureldingar með 21 stig og fylgdi eftir frábærum fyrsta leik á mánudag. Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 18 stig fyrir Þrótt og Paula Gomez 16.

Þróttur vann fyrsta leikinn á mánudagskvöld 3-1 og getur því tryggt sér titilinn með sigri í kvöld. Liðið hefur unnið alla sína leiki gegn Aftureldingu í vetur og þegar hampað bæði deildar- og bikarmeistaratitli.

Stærsta spurningamerkið fyrir kvöldið er María Rún Karlsdóttir, sem uppalin er í Þrótti en leikur nú með Aftureldingu. Fyrir fyrsta leikinn á mánudag hafði hún nær ekkert spilað í vetur vegna meiðsla. Hún fór meidd út af í þriðju hrinu á miðvikudag og eftir það fjaraði undan Aftureldingu.

Þróttur hefur átta sinnum orðið Íslandsmeistari í blaki kvenna, fyrst árið 1996 en síðast 2013. Liðið var ráðandi á árunum 2000-2004 og vann þá titilinn fjórum sinnum í röð. Engin þeirra leikmanna sem spila í dag var í hópnum 2013 en Helena Kristín Gunnarsdóttir varð Íslandsmeistari með Þrótti 2011.

Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður í beinni útsendingu á SportTV.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.