Blak: Þróttur getur landað titlinum í kvöld
Kvennalið Þróttar getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki í kvöld með sigri á Aftureldingu í þriðja leik liðanna í Neskaupstað. Þróttur vann annan leikinn í Mosfellsbæ á miðvikudag 1-3.Leikurinn var jafnari heldur en lokatölurnar gefa til kynna og nokkuð sveiflukenndur.
Afturelding byrjaði fyrstu hrinuna betur og komst í 7-3 en eftir að staðan var 8-7 komu fimm stig Þróttar í röð sem snéri hrinunni gestunum vil.
Norðfjarðarliðið hafði frumkvæðið upp í 18-18. Afturelding komst yfir 21-19 og var yfir 23-21 en þá komu fjögur stig Þróttar í röð sem kláruðu hrinuna.
Afturelding hafði yfirburði framan af annarri hrinu og var yfir 14-7. Þróttur jafnaði 19-19 og hélt jöfnu fram í 21-21. Fjögur stig heimaliðsins í röð réðu þar úrslitum.
Þróttur komst í 0-6 í þriðju hrinu en Afturelding svaraði með átta stigum í röð. Afturelding hafði frumkvæðið eftir að staðan var 12-12 upp í 23-23 að tvö stig Þróttar í röð gerðu út um leikinn.
Í fjórðu hrinunni var mátturinn úr Mosfellsbæjarliðinu, Þróttur var yfir 6-13 um miðja hrinu og kláraði hana 17-25.
Haley Hampton var stigahæst Aftureldingar með 21 stig og fylgdi eftir frábærum fyrsta leik á mánudag. Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 18 stig fyrir Þrótt og Paula Gomez 16.
Þróttur vann fyrsta leikinn á mánudagskvöld 3-1 og getur því tryggt sér titilinn með sigri í kvöld. Liðið hefur unnið alla sína leiki gegn Aftureldingu í vetur og þegar hampað bæði deildar- og bikarmeistaratitli.
Stærsta spurningamerkið fyrir kvöldið er María Rún Karlsdóttir, sem uppalin er í Þrótti en leikur nú með Aftureldingu. Fyrir fyrsta leikinn á mánudag hafði hún nær ekkert spilað í vetur vegna meiðsla. Hún fór meidd út af í þriðju hrinu á miðvikudag og eftir það fjaraði undan Aftureldingu.
Þróttur hefur átta sinnum orðið Íslandsmeistari í blaki kvenna, fyrst árið 1996 en síðast 2013. Liðið var ráðandi á árunum 2000-2004 og vann þá titilinn fjórum sinnum í röð. Engin þeirra leikmanna sem spila í dag var í hópnum 2013 en Helena Kristín Gunnarsdóttir varð Íslandsmeistari með Þrótti 2011.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður í beinni útsendingu á SportTV.