Blak: Þróttur í þriðja sætið eftir frábæra leiki gegn HK
Kvennalið Þróttar hafði þriðja sæti úrvalsdeildar kvenna í blaki af HK með tveimur 3-0 sigrum á Kópavogsliðinu í Neskaupstað um helgina. Karlaliðinu gekk ekki jafn vel.Í fyrri leik kvennaliðanna fór HK betur af stað og skoraði fyrstu sex stigin. Þróttur tók leikhlé og skoraði fyrsta stigið strax í kjölfarið. HK stelpur voru samt áfram vel yfir og voru nánast með unna hrinu í höndunum í stöðunni 17-21.
Þróttur skoraði þá sjö stig í röð. Með leikhléi náðist aftur að koma skikkan á leik HK, en hið óumflýjanlega varð aðeins tafið því Þróttur vann eftir upphækkun 24-26. Þróttur fylgdir þessu síðan eftir með 25-21 sigri eftir jafna aðra hrinu og bursti í þeirri þriðju, 25-12.
Seinni leikurinn byrjaði eins og þeim fyrri lauk, Þróttur skoraði fyrstu tíu stigin í honum og vann fyrstu hrinu 25-10. Í annarri hrinu var KA á undan upp í 10-11 en Þróttur snéri henni við og vann 25-18. Lokahrinan fór 25-19.
Ester Rún Jónsdóttir var stigahæst hjá Þrótti í fyrri leiknum með 14 stig en þeim seinni skoraði Maria Jimenez 12.
Með sigrunum hirti Þróttur þriðja sætið af HK, er komið í 17 stig úr 9 leikjum en liðin hafa leikið flesta leiki allra í deildinni. Kvennaliðið hefur þar með lokið keppni á þessu ári.
Karlaliðið tapaði
Karlalið Þróttar lék einnig tvo leiki við HK en þar vegnaði Kópavogsliðinu heldur betur. HK vann þann fyrri örugglega 0-3 eða 16-25, 17-25 og 18-25 í hrinum.
Í þeim seinni vann HK fyrstu hrinuna 16-25 og þá næstu 20-25 en Þróttur þá þriðju 25-22. Í henni snérist taflið aðeins við, HK var fyrir í blábyrjun eins og Þróttur hafði verið fyrri tvær. HK kláraði þó þriðju hrinuna örugglega, 15-25.
Andri Snær Sigurjónsson var stigahæstur hjá Þrótti í fyrri leiknum með 8 stig en Jóse Federico í þeim seinni með 11. Í honum réðu Þróttarmenn ekkert við Hristyan Dimitrov sem skoraði 33 stig.
Þróttur er í fjórða sæti með 13 stig úr 8 leikjum. Liðið á enn leiki til góða á önnur lið deildarinnar. Liðið leikur sinn síðasta leik á árinu gegn KA á Akureyri um næstu helgi.