Blak: Þróttur mætir til leiks með nýjan þjálfara og mikið breytt lið

Meistaraflokkar Þróttar spila sína fyrstu leiki í úrvalsdeildinni í vetur um helgina þegar HK og Afturelding koma í heimsókn. Miklar breytingar hafa orðið á bæði karla- og kvennaliðunum þar sem ungir leikmenn hafa leitað frá Norðfirði í nám. Nýr þjálfari er líka tekinn við.

Þjálfarinn heitir Jannis Jerumanis og kemur frá Lettlandi. Hann hefur komið að þjálfun félagsliða þar og í Sviss sem og yngri landsliða Lettlands. Hann mun þjálfa bæði úrvalsdeildarliðin auk þess að verða yfirþjálfari yngri flokka.

„Hann hefur töluverða reynslu bæði af yngri og eldri flokkum og er menntaður íþróttafræðingur. Við bindum vonir við hann,“ segir Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, formaður blakdeildar Þróttar.

Miguel Angel Melero verður aðstoðarþjálfari karlaliðsins en Guillermo Gomez kvennaliðsins. Jannis tekur við starfinu af Atla Frey Björnssyni sem þjálfaði meistaraflokkana í fyrra.

Nánast nýtt kvennalið


Miklar breytingar hafa orðið á Þróttarliðunum í sumar. Svo að segja nýtt kvennalið mætir til leiks um helgina. Þeir erlendu leikmenn sem voru í fyrra eru farnir og nokkrir þeirra íslensku fluttir í burtu vegna náms og enn aðrir ekki með af öðrum orsökum. Meðal þeirra er fyrirliðinn Amelía Rún Jónsdóttir.

Með liðinu í vetur mun spila brasilísk blakkona, Ana Pimenta. Hún býr á Egilsstöðum þar sem maður hennar, Gustav Suhr-Jessen spilar körfuknattleik með Hetti, en Ana á meðal annars að baki leiki í bandaríska háskólablakinu. Þá er Ester Rún Jónsdóttir áfram hjá Þrótti.

„Það má segja að við séum með alveg nýtt lið. Kvennaliðið er mjög ungt og það munu stelpur byrja inn á um helgina sem eru nýbyrjaðar að æfa með meistaraflokki,“ segir Sigríður Þrúður. Hún segir enn verið að horfa eftir reyndari leikmönnum til að styrkja liðið. Opið er fyrir félagaskipti til 31. október og opnað aftur í janúar.

Hjá karlaliðinu hafa bæði yngri og eldri leikmenn horfið á braut, meðal annars Sölvi Páll Sigurpálsson og Raul Asensio sem voru lykilmenn í fyrra. Þá er Melero að ná sér eftir að gerð á hné. Á móti er Börkur Marinósson kominn heim og Javier Garcia Mata, Spánverji sem starfað hefur í Neskaupstað um tíma, spilar með liðinu.

U-20 ára liðin skila dýrmætri reynslu


Í vetur verður leikin þreföld umferð í báðum deildum. Staða liðanna að henni lokinni ræður hvort þau komist í úrslitakeppni. Deildin fer hratt af stað en bæði lið spila við Aftureldingu á laugardag og HK á sunnudag.

Líkt og í fyrra sendir Þróttur U-20 ára lið til keppni í fyrstu deild, bæði karla og kvenna. Sigríður segir það hafa gefist mjög vel. „Við erum áfram með sérstaklega stóran strákahóp. Stelpurnar eru færri því svo margar þeirra fara í úrvalsdeildarliðið. Við sjáum hins vegar á því hversu margir leikmenn frá Þrótti eru valdir í landsliðshópa að þetta hefur verið góð reynsla.“

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigríður Þrúður


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar