Fótbolti: KFA tryggði sér leik á Laugardalsvelli

KFA tryggði sér sæti í úrslitum Fótbolti.net bikarsins með sigri á Tindastóli í undanúrslitum um helgina. Fáskrúðsfirðingur skoraði annað marka KA sem urðu bikarmeistarar eftir sigur á Víkingi.

KFA tók á móti Tindastóli í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Austfjarðaliðið var fyrirfram líklegra því Tindastóll spilaði í sumar í fjórðu deild en KFA í annarri. Tindastóll vann þó sína deild með yfirburðum.

Gestirnir komust yfir á fjórðu mínútu en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á tíundu mínútu. Marteinn Már Sverrisson skoraði sigurmarkið á 69. mínútu.

Úrslitaleikurinn verður spilaður á Laugardalsvelli um næstu helgi. KFA mætir þar Selfossi sem vann hinn undanúrslitaleikinn, en Selfoss vann aðra deildina í sumar.

Í A-úrslitum 2. deildar kvenna tapaði Einherji 0-4 fyrir Haukum á heimavelli um helgina. Haukar voru 0-1 yfir í hálfleik. Ásdís Fjóla Víglundsdóttir fékk rautt spjald í liði Einherja á 36. mínútu.

Fáskrúðsfirðingurinn Dagur Ingi Valsson skoraði seinna mark KA sem urðu bikarmeistarar karla með 2-0 sigri á Víkingi. Mark Dags kom á 90+9 mínútu eftir skyndisókn. Hann kom inn á sem varamaður fimm mínútum fyrr. Annar Austfirðingur, Norðfirðingurinn Halldór Hermann Jónsson, var í liðsstjórn KA.

U-20 ára lið FHL tryggði sér sæti í undanúrlitum B deildar með 12-2 sigri á Haukum um helgina. Mörkin skiptu máli því liðið varð jafnt Stjörnunni/Álftanesi að stigum en komst áfram með fjórum mörkum betra markahlutafall. Í undanúrslitum mætir liðið ÍBV/Grindavík í Eyjum á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.