Blak: Þróttur með yfirburði gegn Þrótti/Fylki
Þróttur háir harða baráttu við KA um þriðja sætið í úrvalsdeild karla í blaki. Liðið vann tvo góða sigra á sameiginlegu liði Þróttar Reykjavíkur og Fylkis í Neskaupstað um helgina.
Þróttur vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-0 eða 25-8, 25-22 og 25-19 í hrinum. Heimaliðið varð samt fyrir áfalli í fyrstu hrinu þegar uppspilarinn Borja Gonzalez lenti á leikmanni gestanna undir netinu og missteig sig.
Þróttur vann líka seinni leikinn 3-0 eða 25-13, 25-13 og 25-15 í hrinum. Hinn sextán ára gamli Atli Fannar Pétursson var stigahæstur Þróttara í leiknum.
Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar, stigi á eftir KA. Bæði lið eiga tvo leiki eftir en leikin er fjórföld umferð í deildinni.
Þróttur heimsækir Aftureldingu, sem er í fimmta sæti, eftir páska. Á sama tíma tekur KA á móti Stjörnunni sem er í öðru sæti.
Liðið sem er í fjórða sæti mætir HK í úrslitakeppninni en Kópavogsliðið heldur á Íslandsmeistaratitlinum og hefur haft yfirburði í deildinni í vetur. Liðið í þriðja sæti mætir Stjörnunni sem miðað við úrslit vetrarins ætti að teljast viðráðanlegri andstæðingur.