Blak: Þróttur og HK skiptust á sigrum
Þróttur og HK unnu sinn leikinn hvort en liðin mættust í Mizuno-deild karla í blaki á Norðfirði um helgina. Höttur er skrefi frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir leiki helgarinnar.
Þróttur vann fyrri leikinn á laugardag 3-1 eða 22-25, 25-16, 25-22 og 25-18 í hrinum. HK svaraði hins vegar með að vinna seinn leikinn 1-3 eða 25-23, 21-25, 23-25 og 18-25.
Jorge Basualdo og Valgeir Valgeirsson voru stigahæstir hjá Þrótti í báðum leikum en Tehódór Óskar Þorvaldsson hjá HK.
Þriðja sætið tryggt
Leikirnir breyttu því litlu um stöðuna í deildinni nema styrktu stöðu Þróttar í þriðja sæti og sýndu liðinu fram á að það geti vel unnið tvö efstu liðin sem ætti að auka sjálfstraustið fyrir úrslitakeppnina í vor.
Þar verður HK að líkindum mótherjinn í undanúrslitum. Helst gleðst Stjarnan yfir úrslitunum því toppsætið er öruggara eftir tap HK.
Stórsigur á ÍA
Höttur burstaði ÍA 101-66 í fyrstu deild karla á fimmtudag en liðin mættust á Egilsstöðum. Yfirburðir Hattar voru algjörir og tækifærið var nýtt til að hvíla lykilmenn og gefa þeim yngri tækifæri þegar á leið leikinn.
Stærstu tíðindin úr leiknum voru þau að Aaron Moss náði enn einni þrefaldri tvennunni, skoraði ekki nema 11 stig en tók 10 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
Valur klúðraði leiknum gegn Fjölni
Stærstu tíðindi helgarinnar eru hins vegar þau að Fjölnir vann Val á Hlíðarenda 101-104 í framlengdum leik á föstudagskvöld en liðin hafa barist við Hött um toppsætið.
Valsmenn glopruðu leiknum úr höndum sér eftir að hafa verið með 12 stiga forskot, 85-73 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og 90-85 þegar 20 sekúndur voru eftir.
Valsmenn misnotuðu annað af tveimur vítum sínum þegar fjórar sekúndur voru eftir, Fjölnismenn brunuðu upp og jöfnuðu og reyndust svo sterkari í framlengingunni.
Þar með hafa bæði liðin tapað fjórum leikjum á móti tveimur Hattar. Höttur á eftir Vestra og Breiðablik heima en Val og Ármann úti. Þrír sigra í þessum fjórum leikjum þarf til að tryggja deildarmeistaratitilinn og sætið í úrvalsdeild.