Blak: Þróttur spilar heimaleiki að heiman
Úrslitakeppnin í úrvalsdeildinni í blaki er hafin. Karlalið Þróttar Fjarðabyggðar spilar gegn liði Vestra frá Ísafirði um sæti í undanúrslitum. Vegna þéttrar leikadagskrár neyðast liðin til að spila heimaleiki sína að heiman.
Leikjadagskráin er þétt og ferðalög austur og vestur eru löng og tímafrek. Þess vegna var sú ákvörðun tekin að liðin spili leikina fyrir sunnan í Reykjavík og Mosfellsbæ.
Formaður Blakdeildar Þróttar, Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, skrifar á Facebook að þetta sé ekki drauma staða, en að í þéttri leikjadagskrá sé lítið svigrúm fyrir löng og tímafrek ferðalög, sérstaklega ekki hjá liðum með bæði karla- og kvennalið að spila. Þjálfari kvennaliðsins spilar með karlaliðinu og hefði því ekki náð að vera með báðum liðum ef leikirnir hefðu farið fram á „réttum” heimavöllum.
Hún segir að það þurfi að finna lausnir við svona aðstæðum og að þetta gefi stuðningsmönnum Þróttar eða Vestra á höfuðborgarsvæðinu einstakt tækifæri til að mæta á viðureignir þessara langsbyggðarliða.
„Það er ekkert einfalt að flytja heimaleikina sína í nýtt hús, og hafa ekki alla sjálfboðaliðana okkar við hendina. En bæði þessi lið eiga góða að svo það var ekki vandamál að fá aðstoð við framkvæmdina,” skrifar Sigríður.
Í dag á kvennalið Þróttar leik gegn Aftureldingu á heimavelli í Neskaupstað þar sem liðin keppa um sæti í undanúrslitum.
Mynd: Sigga Þrúða