Blak: Þróttur upp að hlið Aftureldingar á toppnum
Þróttur deilir efsta sæti Mizunu-deildar kvenna í blaki með Aftureldingu eftir að hafa lagt Völsung tvívegis að velli í Neskaupstað um helgina.
Fyrri leikurinn var á föstudag og hann vann Þróttur 3-0 eða 25-12, 25-22 og 25-23 í hrinum. Seinni leikurinn á laugardag fór líka 3-0 eða 25-21, 25-21 og 25-18 í hrinum.
Völsungsliðið spilar í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn en leikmenn liðsins eru engir nýgræðingar. Sást það meðal annars á því að meðalaldur Húsavíkurliðsins voru 35,4 ár en 18,9 hjá Þrótti. Þá er einn erlendur leikmaður í Völsungsliðinu sem dró vagninn í seinni leiknum.
Ana Vidal og María Rún Karlsdóttir skoruðu á móti flest stig Þróttar. Þær eru einnig stigahæstar í deildinni. María Rún hefur skorað 112 stig það sem af er hausti og Ana 102.
Frammistaðan hefur skilað Þrótti á topp deildarinnar með 15 stig eftir sjö leiki, við hlið Aftureldingar sem ekki hefur leikið nema 5 leiki. HK er í þriðja sæti en hefur ekki leikið nema fjóra leiki.
Þróttur Reykjavík kemur í heimsókn austur fyrstu helgina í desember og viku síðar heimsækir Þróttur HK í Kópavogi.