Blak: Þróttur vann eina hrinu gegn Hamri
Eftir tvo sigurleiki í röð tapaði karlalið Þróttar í blaki 1-3 fyrir Hamri þegar liðin mættust í úrvalsdeildinni í Neskaupstað á laugardag. Liðið á í hörkubaráttu við HK og KA um fjórða sætið og þar með spilarétt í efri hluta deildarinnar á nýju ári.Hamar hefur verið besta lið landsins í karlaflokki síðustu ár. Í vetur hefur Afturelding fylgt Hveragerðisliðinu eftir en hvort lið hefur aðeins tapað einum leik, það er að segja hvort fyrir öðru.
Þróttur skoraði fyrsta stigið í leiknum en síðan óx forskot Hamars jafnt og þétt þar til hrinunni lauk með 15-25 sigri gestanna. Þróttur varð fyrir blóðtöku þegar uppspilarinn Miguel Angel Ramos Melero meiddist en í stað hans kom heimamaður, Sölvi Hafþórsson sem er 15 ára.
Sömu lokatölur urðu í annarri hrinu. Hún skar sig úr í leiknum fyrir þær sakir að Hamar skoraði fyrsta stigið, annars var það Þróttur.
Þannig var það í þriðju hrinu en þar tókst liðinu að halda forustunni, náði góðu forskoti og kláraði hana 25-14. En síðan fór á sömu leið og áður, Þróttur skoraði fyrsta stigið en Hamar komst fljótt yfir og vann í þriðja sinn 15-25. Raul Garcia Asensio var stigahæstur Þróttar með 19 stig.
Þróttur á í mikilli baráttu um fjórða sæti deildarinnar, sem gefur spilarétt í efri hlutanum þegar hún skiptist í tvo hluta eftir áramót. HK er í því sæti með 16 stig en Þróttur og KA þar á eftir með 15 stig. Þróttur er ofar með betra hrinuhlutfall en KA á leik til góða.
Þróttur á leik gegn Stál-Úlfi á fimmtudag. Á miðvikudag spilar kvennaliðið gegn KA. Þetta eru síðustu heimaleikir liðanna fyrir jól.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða