Blak: Tímabilið búið hjá karlaliði Þróttar

Meistaraflokkar Þróttar Neskaupstað hafa lokið keppni á Íslandsmótinu í blaki í ár eftir að karlaliðið féll úr leik í átta liða úrslitum gegn KA.

Liðin mættust öðru sinni á Akureyri á miðvikudagskvöld en KA vann fyrri leik liðanna í Neskaupstað 3-0. Lokatölur á miðvikudagskvöld urðu hinar sömu en leikurinn var nokkuð jafnari en sá fyrri.

Segja má að Þróttarar hafi náð að klára tímabilið með reisn um leið og þeir nagi sig í handabökin yfir að hafa ekki náð að minnsta kosti einni hrinu af KA.

KA var yfir 15-10 í fyrstu hrinu en þá kom frábær kafli Þróttar sem breytti stöðunni í 15-16. KA komst ekki yfir á ný fyrr en í 21-19 og þurfti upphækkun til að klára hrinuna, 26-24.

Í annarri hrinu var jafnt upp í 9-9, KA tók þá rispu, breytti stöðunni í 14-10, lét það forskot ekki af hendi og vann 25-18.

Þriðja hrinan var jöfn og hafði Þróttur 19-20 forskot, en í lokin fjaraði undan liðinu og KA vann hana 25-22.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar