Blak: Tímabilinu lokið hjá karlaliðinu
Tímabilinu er lokið hjá karlalið Þróttar í blaki eftir tap í oddahrinu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í Kópavogi í gær.Þróttur þurfti á sigri að halda eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum. Þar af fór leikur númer tvö í Neskaupstað á föstudagskvöld í oddahrinu.
Þróttarliðið yfirspilaði HK í fyrstu hrinu í gær og vann hana 15-25. Önnur hrina var jafnari, um miðbikið náði Þróttur fjögurra stiga forskoti og kláraði hana 23-25.
Þriðja hrinan var eign HK frá upphafi til enda og vann Kópavogsliðið hana 25-18 og sömu sögu var að segja af fjórðu hrinunni.
Aftur var því komið að oddahrinu. Þróttur var þar lengi yfir, síðast 11-12 en HK vann með fjórum stigum í röð í lokin. Mateo Castrillo var stigahæstur eins og oftast nær í vetur með 34 stig.
Tímabilinu er þar með lokið hjá karlaliði Þróttar. Liðið endaði í þriðja sæti deildakeppninnar en féll út í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Þrátt fyrir jafna leiki við HK í undanúrslitum Íslandsmótin er reyndin samt sú að Þróttur féll þar úr leik án sigurs.
Liðið hefur treyst mjög á Mateo sem miðað við stigaskorið er með öflugri blakmönnum sem hér hafa leikið. Að baki honum er frekar ungt lið sem enn er að safna í reynslubankann.