Blak: Tveir tapleikir gegn Vestra

Lið Þróttar í úrvalsdeild karla í blaki tapaði báðum leikjum sínum gegn Vestra á Ísafirði um síðustu helgi. Góður hópur núverandi og fyrrverandi Þróttara hafa verið kallaðir til landsliðsæfinga um næstu helgi.

Þróttur fór vestur og spilaði gegn Vestra föstudag og laugardag. Fyrri leikurinn tapaðist 3-0 eða 25-15, 26-24 og 25-18. Seinni leikurinn tapaðist 3-1 eða 25-15, 25-20, 21-25 og 25-13.

Úrslitin þýða að Vestri hafði fimmta sætið af Þrótti, er kominn með 21 stig úr 13 leikjum en Þróttur er með 19 stig úr 14 leikjum. Liðin berjast við Aftureldingu um fjórða sætið en Mosfellsbæjarliðið hefur 24 stig úr 13 leikjum.

Um næstu helgi hefur verið boðuð æfingahelgi landsliða á vegum Blaksambands Íslands á Húsavík og Laugum í Reykjadal. Þar verða annars vegar A-landsliðin, hins vegar U-21 árs lið kvenna og U-22 karla.

Heiða Elísabet Gunnarsdóttir er eini núverandi leikmaður Þróttar sem valin er í A-landsliðin. Í kvennaliðnu eru fjórar aðrar konur sem spilað hafa með Þrótti: Gígja Guðnadóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir í KA og María Rún Karlsdóttir og Tinna Rut Þórarinsdóttir úr Aftureldingu. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir er einnig í úrtakinu en hún mætir ekki um helgina þar sem hún spilar í Svíþjóð.

Þrír fyrrum leikmenn Þróttar eru í karlalandsliðinu: Ragnar Ingi Axelsson úr Hamri, Atli Fannar Pétursson úr Fylki og Þórarinn Örn Jónsson úr Aftureldingu. Galdur Davíðsson er einnig á listanum en hann spilar í Danmörku og mætir því ekki.

Þrír núverandi leikmenn Þróttar, þeir Andri Snær Sigurjónsson, Ísak Tandri Hugason Zoega og Egill Kolka Hlöðversson eru í U-22 ára liðinu. Þar hitta þeir fyrrum samherja sína Sölva Pál Sigurpálsson og Börk Marinósson sem í dag spila með HK.

Ester Rún Jónsdóttir er í U-21 árs liðinu sem og Heiðbrá Björgvinsdóttir frá Fáskrúðsfirði sem spilar með KA.

Liðin eiga þó ekki leiki fyrr en í ágúst. Tvö ár eru liðin síðan þau spiluðu síðast keppnisleiki en mót, sem halda átti milli jóla og nýárs, var frestað á síðustu stundu.

Mynd: Blakdeild Þróttar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar