Blak: Viðurkenni að ég átti ekki von á að vinna

Karlalið Þróttar hafði betur gegn Íslandsmeisturum HK í fyrri leik liðanna af tveimur um helgina. Þjálfari liðsins segist ekki hafa átt von á sigri en liðið hafi spilað frábærlega í báðum leikjunum.

Þróttur vann fyrri leikinn 1-3 eða 25-19, 23-25, 21-25 og 22-25 í hrinum. Liðið átti frábæran endakafla í þriðju hrinunni þar sem það skoraði átta síðustu stigin, breyttu stöðunni úr 21-17 í 21-25.

HK vann hins vegar seinni leikinn 3-0 eða 25-23, 25-18 og 25-23 í hrinum. Jafnt var á nánast öllum tölum í síðustu hrinunni.

Þrátt fyrir að seinni leikurinn hafi tapast var Ana Vidal, þjálfari liðsins, afar ánægð með frammistöðu liðsins.

„Ég viðurkenni að ég átti ekki von á að vinna HK. Ég var hálf hissa því ég held að þetta séu bestu leikir liðsins frá því ég tók við því. Leikmennirnir spiluðu alveg eins og við lögðum leikinn upp og fylgdu leikkerfinu fullkomlega,“ segir hún.

Miguel Castrillo átti stórleik í fyrri leiknum og skoraði ein 40 stig. „Hann var sjóðheitur og gerði nánast engin mistök,“ segir Ana.

Meiðsli hægðu hins vegar á Miguel í seinni leiknum. Uppspilarinn Borja Gonzales spilaði báða leikina þrátt fyrir meiðsli. „Ég vissi að seinni leikurinn yrði nánast ómögulegur en ég er sátt. Vörnin var þétt og leikmenn HK áttu erfitt með að finna leiðir framhjá okkur.“

Liðið er hins vegar án Argentínumannsins Jorge Basualdo sem var drjúgur í stigaskorun fyrir liðið í fyrra. Jorge meiddist í síðasta heimaleik og yfirgaf leikvöllinn áður en leiknum lauk án leyfis. „Það kom upp ágreiningur svo við ákváðum að stóla ekki á hann.“

En yngri leikmenn hafa stigið upp í staðinn. Ana var til dæmis ánægð með leik Atla Fannars Péturssonar og Þórarins Jónssonar sem spiluðu á köntunum um helgina.

„Þeir sýndu framfarir, sérstaklega hafa þeir bætt móttökuna. Heilt yfir var hún betri hjá liðinu og það gerir okkur kleift að spila betra blak.“

Sigurinn gerði lítið fyrir stöðu liðsins í deildinni, það er í fjórða sæti af fimm en fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppnina í vor. Þá leikur liðið ekki fleiri leiki á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar