Boðið á rathlaupaæfingu í Selskógi
Rathlaupafélagið Hekla stendur fyrir æfingu í Selskógi fimmtudaginn 25. ágúst klukkan 17. Boðið verður upp á brautir við allra hæfi og skipuleggjendur lofa að það sé ekki nauðsynlegt að hlaupa.Rathlaup (orientering) er hlaupaíþrótt sem stunduð er á opnum svæðum bæði innan borgarmarka og utan. Íþróttin er þannig lík víðavangshlaupi.
Þátttakendur fá kort (oftast sérstakt rathlaupskort) af hlaupasvæðinu og eiga með aðstoð þess að fara á milli stöðva sem merktar eru á kortið. Hefðbundið rathlaup gerir ráð fyrir því að farið sé á milli stöðvanna í fyrirfram ákveðinni röð en til eru ýmsar aðrar útgáfur.
Á æfingunni á morgun verða þrjár brautir í boði, 1, 2, og 3 kílómetra langar. Að sögn Gísla Jónssonar, eins af skipuleggjendum æfingarinnar, er þó engin skylda að hlaupa eða að hafa neina reynslu af rathlaupum.
„Æfingin hefst klukkan 17 á bílaplaninu við Selskóg og það eru allir velkomnir að mæta og prófa. Þetta er þrælskemmtileg íþrótt og það þarf ekkert endilega að hlaupa þetta þó þetta kallast rathlaup.“
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um rathlaup má benda á heimasíðu Rathlaupafélagsins Heklu. Einng má skoða myndband sem er hér að neðan, sem unnið var af íþróttadeild RÚV.