Bókabúðin á Seyðisfirði pantaði snjóbrettablöð mánaðarlega

Ívar Pétur Kjartansson frá Seyðisfirði hefur vakið lukku með líflegum lýsingum frá keppni á snjóbrettum á Vetrarólympíuleikunum sem lýkur um helgina í Pyeongchang í Suður-Kóreu um helgina.

„Ég var að tala við kunningja mína sem vinna uppi á RÚV sem vissu af snjóbrettaáhuga mína og að íþróttadeildina vantaði aðstoð við að lýsa ákveðnum keppnisgreinum. Ég sendi deildinni skilaboð upp á djókið en þau tóku vel í það,“ segir Ívar Pétur um aðdraganda þess að hann fór að lýsa snjóbrettakeppninni.

Síðan hafa tekið við margar andvökunætur enda níu tíma mismunur á Íslandi og Pyeongchang. „Næturnar geta verið erfiðar en maður drekkur nóg af kaffi og þegar keppnin er kominn í gang er þetta spennandi.“

Erfitt að þýða hugtökin

Tungutakið í snjóbrettagreinunum er nokkuð sérstakt og mikið af enskuslettum. „Það er erfitt að þýða mörg brögð eða grip sem keppendur gera, til dæmis þau sem nefnd eru eftir þekktu snjóbrettafólki. Ég reyni að þýða eða útskýra á íslensku eftir sem ég get.“

Þrátt fyrir þetta hefur hann fáar athugasemdir fengið frá málfarsdeild RÚV eða áhorfendum. „Ég hef ekki verið skammaður og ég veit ekki til þess að það hafi verið kvartað fyrir mér, að öðru leyti að maðurinn hennar mömmu sendi mér SMS í morgun!“

Þó nokkrir gamlir kunningjar sperrtu eyrun þegar þeir heyrðu rödd sem þeir þóttust kannast við lýsa snjóbrettakeppninni. „Ég hef fengið góð viðbrögð frá ótrúlegasta fólki. Mér finnst gaman þegar ég heyri frá fólki sem ekki hefur áhuga á snjóbrettum að því þyki gaman að keppninni og skilji hvað sé í gangi.“

Á bretti frá því um fermingu

Snjóbrettaáhuginn hefur verið lengi til staðar hjá Ívari Pétri. „Ég byrjaði á skíðum þegar ég var tveggja eða þriggja ára heima á Seyðisfirði. Þrettán eða fjórtán ára steig ég í fyrsta sinn á snjóbretti og það hefur verið mín helsta áhugamál og ástríða síðan. Ég á marga kassa af gömlum snjóbrettablöðum, það voru pöntuð fyrir mig blöð einu sinni í mánuði frá Bandaríkjunum í bókabúðina á Seyðisfirði.“

Það vill hins vegar þannig til að ég er betri í tónlist en á snjóbrettum þannig ég neyðist til að vinna við hana,“ segir Ívar Pétur sem spilar með FM Belfast og hefur getið sér góðs orðs sem plötusnúður.

Geggjaðir leikar

Keppni á snjóbrettum lýkur í nótt með keppni í brettafimi eða „big air.“ Ívar Pétur er ánægður með hvernig hún hefur tekist.

„Þetta hafa verið geggjaðir leikar. Hápunktarnir hafa verið Red Gerard sem vann brekkufimi (e. slope style) og Chloe Kim sem vann hálfpípuna (e. half pipe). Þau eru bæði fædd árið 2000 en voru samt langbest í sínum flokki.

Síðan vann Shaun White gullverðlaun í þriðja skiptið á Ólympíuleikum í hálfpípu. Hann er gamall kall í bransanum og langelstu keppandinn á brettunum, jafngamall mér (innsk. fæddur 1986).

Loks vann Anna Gasser frá Austurríki brettafimi kvenna. Það hefur geggjað að sjá hve þróunin hefur verið hröð hjá konunum í snjóbrettunum og það fengu þær að sýna síðustu nótt.“

ivar petur stafdalur


Ívar Pétur á ferð með FM Belfast á Kanaríeyjum. Mynd: Úr einkasafni

Ívar Pétur á ferð í Stafdal. Mynd: Úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar