Breiðdælingar vilja Péle-völl

Stjórn Ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal hefur lýst yfir vilja sínum til að hýsa knattspyrnuvöll sem nefndur væri brasilísku knattspyrnugoðsögninni Péle, sem lést skömmu fyrir áramót. Enginn knattspyrnuvöllur er á Breiðdalsvík í dag.

Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn Hrafnkels Freysgoða sendi Knattspyrnusambandi Íslands í dag. Forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins viðraði um áramótin þá hugmynd að í hverju aðildarlandi yrði einn knattspyrnuvöllur nefndur eftir Brasilíumanninum, sem lést þann 29. desember.

Í bréfinu er bent á að í dag sé enginn knattspyrnuvöllur á Breiðdalsvík, ekki einu sinni sparkvöllur. Breiðdælingar iðkuðu lengi knattspyrnu að Staðarborg í Breiðdal, 7 km fyrir innan þorpið. Sá völlur hefur ekki verið notaður árum saman, er löngu kominn í órækt og þar af leiðandi nánast ónýtur.

Stjórnin vekur athygli á að kraftur sé í samfélaginu á Breiðdalsvík, verið sé að byggja fjölda íbúðarhúsa þar eftir um 30 ára hlé auk þess sem grunnskólanemendum hafi fjölgað um þriðjung milli ára. Samhliða því hafi starfsemi ungmennafélagsins eflst með æfingum í badminton, körfuknattleik, karate og frjálsíþróttum auk þess sem farandþjálfari KSÍ hafi heimsótt staðinn síðustu sumur.

Staðan sé hins vegar sú að aðstöðu vanti með öllu fyrir knattspyrnuæfingar. Stjórnin segist hafa sótt um styrki fyrir sparkvelli en óskastaðan væri að fá alvöru knattspyrnuvöll sem yrði undirstaðan að öflugu íþróttastarfi í Breiðdælinga næstu áratugina.

Stjórnin óskar því eftir stuðningi KSÍ við framtakið og frekari samtali þar um og bætir við að sannur heiður væri að heiðra minningu Pelé með að nefna völlinn eftir honum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar