Brynjar Árna: Töluðum ekki hátt í vor utan hópsins um að stefnan væri upp

Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins sem í dag fagnaði sigri í þriðju deild karla í knattspyrnu, segir að léttir hafi verið að þurfa ekki að treysta á sigur í síðasta leik til að ná markmiðinu um að komast upp um deild. Liðið hefði þó spilað vel og verið óheppið að enda ekki með sigri.

Höttur tapaði í dag 1-2 fyrir Ægi í lokaleik deildarinnar. Höttur/Huginn var fyrir leikinn búið að tryggja sigur í deildinni en úrslitin þýddi að Ægir komst með liðinu upp í aðra deildina.

„Það var ákveðinn léttir að hafa tryggt að þetta yrði ekki úrslitaleikur. Kannski var of lítil pressa á okkur því mér fannst við ekki nógu grimmir í byrjun. Við unnum okkur hins vegar inn í leikinn og mér fannst við óheppnir að vinna ekki. Við vildum alveg jafn mikið vinna þennan leik.

En þótt skemmtilegra hefði verið að vinna lokaleikinn var alveg jafn gaman að taka á á móti titlinum. Það er frábær tilfinning,“ sagði Brynjar eftir leikinn.

Gott að hafa stóran æfingahóp eystra

Þetta er þriðja sumarið þar sem Höttur og Huginn senda sameiginlegt karlalið til keppni. Fyrri sumrin tvö voru erfið og slapp liðið þá naumlega við fall. Árangurinn nú kemur því einhverjum á óvart. „Við fórum ekki langt út fyrir hópinn með það í vor að krafan væri að fara upp en við vildum stefna ofar heldur en síðustu sumur.

Undirbúningstímabilið gekk vel því við vorum með stóran hóp leikmanna fyrir austan síðasta vetur, við vorum allt upp í 30 á æfingum. Síðan fengum við frábæra útlendinga. Sambland þeirra og heimamanna sem stigu upp hafa skilað þessum árangri,“ segir Brynjar.

Austfirsk lið búa oft við þunnskipaðan æfingahóp á veturna. Margir leikmenn eru í Reykjavík, eða annars staðar, á veturna í námi eða vinnu. Þeir fljúga síðan í leiki á undirbúningstímabilinu og jafnvel yfir sumarið.

„Það munar miklu að vera með stóran hóp allt árið. Mér finnst nauðsynlegt að hafa minnst 20 manns á æfingu til að hún sé almennileg, þótt vissulega séu 30 manna æfingar á sumrin flóknar.“

Unnu fyrstu fjóra leikina

Höttur/Huginn byrjaði tímabilið frábærlega, vann fyrstu fjóra, og fimm af fyrstu sex. Fyrsti ósigurinn kom í 7. umferð. Eftir fyrri helming mótsins hafði liðið unnið sjö leiki, gert tvö jafntefli og tapað tveimur.

Frá og með 16. umferð fór róðurinn að þyngjast. Liðið vann 2 af síðustu sex leikjunum, gerði eitt jafntefli en tapaði þremur.

„Eftir fyrstu fjórar umferðirnar vorum við komin á toppinn og vorum þar út sumarið, þótt við dyttum aðeins niður í lokin. Við misstum fjóra byrjunarliðsmenn um mitt sumar og eftir það lá fyrir að það yrði erfitt að halda dampi en það tókst. Við trúðum alltaf að við myndum klára þetta.“

Annað sem gerðist líka um mitt sumar var að liðið fór að spila heimaleiki á grasinu á Vilhjálmsvelli í stað gervigrassins á Fellavelli þar sem liðið æfir þó lungann úr árinu.

„Mér fannst við oft spila betur á grasinu. Þótt þetta sé ekki besti grasvöllur landsins er hann betri en Fellavöllur. Hér líður okkur best. Þess vegna er skrýtið að úrslitin hafi ekki dottið með okkur en ég held að það sé tilviljum frekar en afleiðing þess að við æfum á gervigrasi,“ segir Brynjar.

Vonast til að fá erlendu leikmennina aftur

Brynjar tók við liðinu fyrir ári og samdi til tveggja ára. Samstarfssamningur Hattar og Hugins er að renna út en flestir búast við að hann verði endurnýjaður. Það er eitt af því sem þarf að ganga frá í tíma fyrir aðra deildina. Það mál er þó meira á borði stjórnar meðan Brynjar hugsar um leikmennina.

„Við erum farnir að ræða við erlendu leikmennina um að koma aftur. Vonandi verður gengið frá því á næstu dögum. Við eigum eftir að ræða við heimamennina en það hljóta allir að vilja taka næsta skref með liðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.