Brynjar Skúla ráðinn til Leiknis
Brynjar Skúlason hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Leiknis Fáskrúðsfirði í knattspyrnu karla. Brynjar hefur þjálfað Huginn Seyðisfirði frá 2009 en tilkynnti fyrir rúmri viku að hann ætlaði ekki að halda því áfram.„Það er spennandi að prófa eitthvað nýtt þótt það sé pínulítið skrýtið að vera búinn að skipta um lið,“ segir Brynjar í samtali við Austurfrétt.
Brynjar er fæddur árið 1978 og hefur A-gráðu í knattspyrnuþjálfun. Hann er uppalinn Breiðdælingur og lék sumarið 1996 með Leikni og þar áður með KBS, sameiginlegu liði Hrafnkels Freysgoða, Súlunnar og Leiknis.
„Þótt ég hafi spilað með Leikni þá er enginn úr því liði í hópnum í dag. Það hefur margt breyst.“
Leiknisliðið er honum þó ekki ókunnugt því Leiknis og Huginn hafa fylgst nokkurn vegin að síðustu ár. Þá hafa Seyðfirðingar fengið að æfa með Leiknismönnum á veturna.
Brynjar hefur störf í nóvember og hlakkar til. „Það er fyrr en ég hef vanist. Þannig fær maður vonandi meiri tíma til að setja mark sitt á hlutina, ná æfingaleikjum fyrir mót til að sjá hvað maður hefur í höndunum og í hverju þarf að vinna.“