Brynjar Skúlason: Áttum að vera búnir að klára leikinn eftir hálftíma

Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis, sá á eftir dauðafærum sem leikmenn hans nýttu ekki í 2-2 jafntefli við Fjarðabyggð í annarri deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

„Við áttum að vera búnir að slátra þessum leik eftir 30 mínútur, algjörlega óhlutdrægt,“ sagði Brynjar eftir leikinn.

„Mér fannst lélegt að fá á okkur fyrra markið. Það kemur eftir fyrirgjöf upp úr innkasti. Í hinu markinu var boltanum neglt fram og hann dettur fyrir markaskorarann. Hann gæti ekki sent boltann þarna upp í skeytin þótt hann fengi 100 tilraunir í viðbót.

Við erum með betra lið en þeir en Fjarðabyggð veitti okkur góðan leik. Þeir eru með góðan framherja og vinstri kantmann. Fyrst við gátum ekki klárað færin einn á móti markmanni þá eigum við ekki meira skilið.

Mér fannst þeir líka verið grófir. Fjórum sinnum í fyrri hálfleik voru menn kýldir í hausinn og varla stoppað þótt þeir væru blóðugir í framan. Mér fannst það lélegt en dómarinn leyfði þetta og þeir spila fast.“

Með leiknum í gær er leikjadagskrá Leiknis í Íslandsmótinu hálfnuð og liðið í efsta sæti deildarinnar. „Staða okkar hlýtur að vera góð því við erum efstir. Við sjáum þó til hvar við endum í september. Það er það sem skiptir máli.“

Leikmenn hafa júlímánuð til að skipta um félag. Brynjar segir að engar breytingar verði á hópi Leiknis fyrir lokaátökin í mótinu. „Við munum spila á þessum strákum sem hafa lagt hart að sér í sumar og vetur. Þeir eiga skilið að fá að klára þetta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.