Byrjuðu með blakið því það vantaði eitthvað fyrir krakkana á veturna

Grímur Magnússon í Neskaupstað fékk í vetur Eldmóðinn, viðurkenningu sem veitt er fyrir óeigingjarnt starf í þágu blakíþróttarinnar á Íslandi. Grímur var annar stofnenda blakdeildar Þróttar og starfaði fyrir deildina í áratugi sem stjórnarmaður, þjálfari, dómari og sinnti einnig öðru sem þurfti að gera.

Grímur er uppalinn Norðfirðingur, ættaður úr Sandvík í aðra ættina en frá Borgarfirði fyrir vestan í hina ættina, þar sem hann var flest sumur hjá móðurfólki sínu. „Ég var farinn vestur helst áður en skóla lauk á vorin og kom til baka eins seint og ég gat, með síðasta sláturbílnum í Borgarnes.“

Grímur menntaði sig síðar sem kennari og kom austur strax eftir útskrift árið 1973, til að starfa við kennslu. Það varð ævistarfið, sem kann að vera skrýtið því Grímur kunni ekki vel við sig í barnaskóla. „Mér gekk ekki vel en í efsta bekk kom að því að einhver uppgötvaði að ég sæi ekki vel. Þá fékk ég gleraugu, hausverkurinn sem ég var alltaf með hætti og mér gekk vel að læra.“

Það þýddi þó ekki að hann ætlaði að verða kennari. „Það var það síðasta sem ég ætlaði að verða. Foreldrar mínir voru kennarar þannig að ég vissi hvernig það var. Á þessum tíma þótti þetta ómerkilegt starf, í það færi fólk sem vissi ekkert um bíla eða önnur tæki og kynni ekki að vinna fyrir sér.“

Rifist um reglurnar í kennarablakinu


Grímur er annar tveggja stofnenda blakdeildar Þróttar Neskaupstaðar, ásamt Ólafi Hr. Sigurðssyni sem nú býr á Seyðisfirði, en deildina stofnuðu þeir um 1978. Grímur segir það ekki hafa verið úthugsaða ákvörðun að byggja upp blakið.

„Það var ekkert að gera fyrir krakkana á veturna. Óli hafði þó verið með handbolta og gengið ágætlega. Hann gerði þann fáránlega hlut, ásamt Sveini Sigurbjarnarsyni á Eskifirði, sem enginn hafði í raun og veru gert, að fara með liðið til Reykjavíkur – landleiðina um hávetur. Vegirnir voru vondir og holóttir, dekkin sóluð og ekki til stórræðanna enda sprakk ótal sinnum á leiðinni. En handbolti hentaði ákaflega illa sem keppnisíþrótt, íþróttahúsið var lítið, leikstjórnandinn í sókninni var nánast inni í eigin teig.“

Í gamla húsinu myndaðist blakhópur kennara, sem fleiri voru með í, en í kjarasamningum kennara var ákvæði um einn tíma á viku til heilsuræktar. „Það áhugaverðasta við hópinn var að þegar kennararnir komu aftur upp á kennarastofu þá var alltaf hávaðarifrildi um reglur. Þess vegna vildi ég ekki taka þátt þegar mér var boðið það fyrst, ég nennti ekkert þessu rifrildi.

Ég lét þó til leiðast og sá strax í fyrsta tíma ástæðuna fyrir rifrildinu, það var ekki spilað eftir neinum reglum. Menn tóku bara boltann og hentu honum. Við frekjuðumst til að spila eftir reglum – og þá hrundi þátttakan!“

Iðkendunum fjölgaði hratt


Ólafur hafði lært undirstöður blaksins í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, þess vegna kunni hann reglurnar. Grímur varð sér út um bækur. Þeir byrjuðu að þjálfa upp lið í þriðja flokki pilta í unglingadeild grunnskóla. Það var veturinn 1982-83 og liðið varð Íslandsmeistari árið 1984, á sínu fyrsta keppnisári. Íslandsmeistaratitlarnir eru síðan orðnir æði margir, sérstaklega í yngri flokkunum.

„Það fjölgaði fljótt, svo á örfáum árum voru iðkendurnir orðnir yfir 150, allir nema við voru yngri en 20 ára. Svo fór að við vorum með ósigrandi lið í mörgum yngri flokkum. Til dæmis var öflugur stúlknaárgangur sem vann alla titla upp í annan flokk. Til að stelpurnar fengju keppni á þeim aldri spiluðu þær líka við 2. flokk pilta og stóðu sig með prýði.

17-19 ára fóru krakkarnir svo í skóla til Reykjavíkur eða Akureyrar. Eitt sinn í útileik okkar gegn Íþróttafélagi Stúdenta í efstu deild karla, setti mig hljóðan þegar liðin voru komin inn á völlinn. Af þeim 12 sem hófu leikinn voru einn Búlgari, einn Reykvíkingur og hinir Norðfirðingar!“

Rifu fjölda húsa á Norðfirði


Það kostaði sitt að halda úti þessu mikla starfi og því réðist blakfólkið í ýmsar fjáraflanir. „Prinsippið var að fara ekki inn á fjáraflanir annarra. Við buðum fram aðstoð okkar við að bera út allan skyndipóst í bænum, svo sem ef það þurfti að tilkynna í skyndi yfirvofandi rafmagns- eða vatnsleysi. Það var nokkuð oft. Við buðumst til að rífa hús og fengum fullt af þeim.

Síðan fórum við að selja klósettpappír. Það gerði ekki nokkur maður þá. Fólk varð undrandi fyrst þegar við bönkuðum upp á. Lykill að Austurlandi var tímarit sem við bárum út í hvert hús frá Breiðdalsvík norður á Vopnafjörð. Það var öðruvísi að sjá staðina með að ganga hús úr húsi. Tvisvar keyptum við nýjan bíl, gáfum út 1000 happdrættismiða og seldum.“

Krakkarnir létu skaflana hverfa


Önnur leið til að gera reksturinn sem hagstæðastan var að ferðast á leiki og mót á rútum. Fengnar voru rútur að láni frá austfirskum fyrirtækjum, Benna og Svenna á Eskifirði, forvera Tanna Travel og hjá Hauki Sigfússyni á Reyðarfirði og síðar einnig frá Austfjarðaleið. Ólafur keyrði fyrst, síðar fór Grímur einnig að grípa í stýrið. En hann var alltaf með. Ferðirnar eru þeim sem í þær fóru minnisstæðar því krafan var í grófum dráttum að hvert barn tæki með sér kuldagalla og skóflu.

„Það var skilyrði að vera með kuldagalla eða hlý föt inni í rútunni. Það gat alltaf eitthvað bilað, sem vissulega varð raunin. Þá var bara skriðið undir og gert við. Eins fóru keðjur undan og á ótt og títt.

Við keyrðum norður í land löngu áður en það var byrjað að ryðja. Við vorum fljótir að sjá að með 30 skóflur voru skaflarnir fljótir að hverfa. Það var undravert hvað 30 ferskir krakkar gátu verið fljótir að ryðja í burtu einhverjum helvítis sköflum.

Einyrkjarnir héðan að austan keyrðu vöruflutningabílana eins lengi og þeir gátu. Þeir voru 2-3 saman og voru að baksast í gegnum þessa skafla. Þeir voru mjög fegnir þegar við komum.

Þróttur mætti en heimaliðið ekki


Grímur segir að þess vegna hafi aldrei verið lagt af stað út í algjöra óvissu. Brottförum hafi stundum verið flýtt eða seinkað til að komast á mót. Í einhverjum tilfellum hafi rútan verið send á undan yfir Oddsskarð, ef það var að lokast, og svo ferjað í hana með snjóbíl. Með þessu hafi Þróttur alltaf mætt í leiki sína í efstu deild á réttum tíma. Á móti komu þau ekki alltaf á réttum tíma heim. „Það var nóg að hugsa um aðra leiðina í einu.“

Og jafnvel var það Þróttur sem gestalið sem mætti, en ekki heimaliðið. „Við fengum eitt sinn svítu á Loftleiðum, settum þangað inn fullt af dýnum. Þannig var það ódýrasta gistingin. Við höfðum ekki rútu í dvölinni fyrir sunnan en reyndum að fá leigubíla út í Digranes í Kópavogi. Þeir treystu sér ekki sökum „ófærðar“. Loks fundum við einn sem treysti sér, þó aðeins tæplega hálfa leið. Þaðan gengum við á meðan hann keyrði til baka til að ná í hina úr liðinu sem lögðu af stað gangandi frá hótelinu.

Þegar við komum í Digranes er þar kominn einn maður úr heimaliðinu, hinir höfðu ekki treyst sér sökum veðurs og ófærðar. Þessi eini var utan af landi og ekkert sérlega sáttur við liðsfélaga sína. Hann argaðist í þeim og hafði það í gegn að þeir drösluðust út í íþróttahús. Á meðan biðum við með leikinn.

Ég snéri mig í leiknum og við þurftum að labba til baka. Það var fínt, snjórinn var ágæt kæling á ökklann því ekki komst bólginn fóturinn í skó.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.