Dagur Ingi átti stoðsendingu og sigurmark í Bestu Deildinni
Fyrsta umferð í Bestu deild karla í knattspyrnu fór fram á mánudaginn síðastliðinn. Þar mættust Fylkir og Keflavík á heimavelli Fylkis. Í byrjunarliði Keflavíkur var Fáskrúðsfirðingurinn Dagur Ingi Valsson. Hann átti stoðsendingu í fyrsta marki Keflavíkur með snyrtilegri hælspyrnu. Allt var jafnt fram á uppbótatíma þar sem Dagur skoraði sigurmarkið fyrir hönd Keflavíkur.
Dagur fékk mikið lof eftir leikinn og var valinn maður leiksins í uppgjörsþættinum Stúkunni þar sem farið er yfir leiki hverrar umferðar.
Dagur segir að liðið hafi byrjað illa en unnið sig inn í leikinn. „Við byrjuðum frekar illa og Fylkir voru með yfirhöndina fyrstu 20 en svo unnum við okkur inn í leikinn hægt og rólega.” Eftir það var lið Keflavíkur með yfirhöndina og sköpuðu nóg af færum. „Sem betur fer náðum við að klára leikinn með sigri,” segir Dagur.
Dagur segir tímabilið leggjast vel í hann eftir langt undirbúningstímabil sem hefur einkennst af meiðslum. „Það er gott að vera kominn af stað og byrja á sigri, að ná að pota inn sigurmarki var geggjað sérstaklega af því að þetta voru síðustu skrefin mín í leiknum áður en ég fékk krampa í kálfana og þurfti að fara út af."
Mynd: Jóhanna Kristín Hauksdóttir