Djúpavogsbúar slá eign sinni á nýjasta liðið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta
Heimurinn virðist varla nægja íbúum Djúpavogshrepps. Þeir hafa nýlega seilst svo langt að slá eign sinni á nýjasta liðið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, sem meira að segja kemur frá Wales. Frá þessu er greint á vef Djúpavogshrepps. Liðið sem um ræðir er Swansea City, sem í gær vann Reading í úrslitaleik um seinasta lausa sætið í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.Djúpavogsbúar vilja kenna félagið við staðinn og viðurkenna að bein þýðing Swanse sé „Svanavatnið.“ Hins vegar sé allt eins nær að kalla félagið „Álftafjörð.“
„Þar með gætum við (og einnig íbúar Álftafjarðar við Ísafjarðardjúp) gert tilkall til liðsins," segir í fréttinni. „Fyrir þá íbúa Djúpavogshrepps, sem ekki eiga sérstakt uppáhaldslið í ensku deildinni, er hér komið tilvalið tækifæri að taka ástfóstri við lið Álftafjarðar. Jafnvel kemur til greina að stofna aðdáendaklúbb á hausti komanda, þegar deildin byrjar af krafti.
Áfram Álftafjörður!“