„Efast um að margir þeirra hafi verið að keyra strætó nokkrum dögum fyrir mótið“
Fjörutíu ár eru í dag liðin síðan Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss þegar hann kastaði kúlunni 20,59 á EM í San Sebastian á Spáni. Sigur Hreins kom nokkuð á óvart og var hann hylltur þegar hann kom aftur heim til Íslands tveimur dögum síðar.
Kastið kom í fyrstu umferð og með því setti Hreinn Íslandsmet. „Heppnin var svo sannarlega með mér, en það hefur ekki verið mín sterkasta hlið að kasta langt í fyrstu köstum mínum,“ sagði Hreinn í samtali við Tímann eftir keppnina.
Í Morgunblaðinu er haft eftir Hreini að hann hafi verið sannfærður um að einhver annar myndi bæta árangur hans. „Það vöknuðu engar vonir um gullverðlaun þó mér tækist vel upp í 1. umferð,“ var fyrirsögn blaðsins.
Keppninauturinn hjálpaði við atrennuna
Flestir höfðu búist við sigri Bretans Geoffrey Capes en hann varð annar og kenndi því um að keppnin hafði tafist um klukkutíma vegna mótmæla aðskilnaðarsinnaðra Baska. Í samtali við íslenska fjölmiðla eftir keppnina gaf Hreinn lítið fyrir þá skýringu, sagði töfina hafa komið niður á öllum.
Í samtali við Tímann sagði Hreinn að vinur hans Capes hefði óskað honum innilega til hamingju og þakkaði Bretanum ómetanlega aðstoð við atrennuna en þeir æfðu saman að morgni keppnisdags. „Eftir að við vorum búnir að finna atrennuna út hjá mér, þá var allt annað að kasta.
Var látinn víkja fyrir handboltalandsliðinu
Bæði innlendir og erlendir miðlar slógu því upp að Hreinn starfaði sem strætóbílstjóri. „Kapparnir hérna hafa eytt geysilegum tíma í að búa sig undir þessa keppni og mér er a.m.k. til efs að margir þeirra haf i verið að keyra strætó eða sinna öðrum skyldustörf um sl. þriðjudag, örfáum dögum fyrir mótið,“ sagði Hreinn við Þjóðviljann.
Íslenskir miðlar fjölluðu um hörku Hreins á æfingum og æfingaaðstöðu hans sem þótti bágborin. „Jú, það er rétt, handknattleikslandsliðið tók af mér alla aðstöðu til að æfa köstin, en maður var svo sem ekkert að telja það eftir, þeir stóðu fyrir sinu og gott betur
Þetta varð hins vegar til þess að ég varð að láta mér nægja að æfa lyftingar af kappi og svo núna síðustu dagana strikaði ég mér hring inni i Laugardal og æfði þar köstin utanhúss.“
Daginn eftir keppnina samþykkti borgarráð Reykjavíkur að gera Hreini kleift að æfa þrjá mánuði yfir sumarið á launum. „Ég var búinn að hreyfa þessu við borgarstjóra því að það er erfitt að stunda vaktavinnu og æfa eins mikið og ég geri,“ sagði Hreinn.
Enn var samt nokkuð í sumarið. „Það sem tekur við hjá mér núna er sjálfsagt akstur „strætó“ og áframhaldandi puð við æfingar“ sagði Hreinn sem æfði tvisvar á dag sex daga vikunnar.“
Ekki alinn á kræsingum
Tekið var á móti Hreini með kostum á Keflavíkurflugvelli þegar hann snéri heim tveimur dögum eftir keppnina. Meðal annars mættu þangað nokkrir fyrrum Evrópumeistarar Íslendinga í frjálsíþróttum.
Hreinn var þá 28 ára gamall og skráður í KR en alinn upp á Hrófbergi í Steingrímsfirði þangað sem hann sótti viðurnefni sitt „Strandamaðurinn sterki.“ Í samtali við Tímann sagði Svava Pétursdóttir, móðir Hreins, að frændi hans hefði kennt honum undirstöðuatriðin í kúluvarpinu og Hreinn byrjað að æfa sig í túninu heima.
„Hann kastaði steinum og hinu og þessu til að sjá, hvað hann gæti komið þeim langt. Hann er ekki alinn á kræsingum, heldur lýsi og mjólkurmat,“ sagði hún.
Þjóðsöngurinn gleymdist
Formaður Frjálsíþróttasambandsins sagðist hafa alið með sér von um góðan árangur en ekki nefnt það upphátt. Hann bað hins vegar fararstjóra Hreins að fara með hljómplötu með íslenska þjóðsöngnum því óvíst væri að Spánverjarnir ættu hann.
Þegar fararstjórinn tilkynnti um árangur Hreins spurði formaðurinn hvort platan hefði ekki verið með í för. „Nei,“ var svarið og svo fylgdi: „sem betur fer, þá eru þjóðsöngvarnir ekki leiknir hér þegar sigurvegararnir eru krýndir!“
Hreinn fluttist síðan austur í Egilsstaði árið 1982 með konu sinni Jóhönnu Þorsteinsdóttur og hafa þau búið þar síðan. Lengst af var Hreinn yfir íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins.
Hann hefur sinnt ungum íþróttamönnum vel með að gefa þeim hollráð og starfað að frjálsíþróttamótum bæði eystra og í Reykjavík. Þá afhenti hann verðlaun á Evrópumótinu innanhúss árið 2011.