„Ég hef alla tíð heillast af bardagaíþróttum“
„Mér finnst þetta bara ótrúlega falleg og heillandi íþrótt,“ segir Héraðsbúinn Karítas Hvönn Baldursóttir, sem varð á dögunum danskur meistari í bardagaíþróttinni Muay Thai eftir að hafa aðeins æft íþróttina í eitt ár.
Karítas Hvönn ólst upp á Kirkjubæ á Fljótsdalshéraði, var í barnaskólanum á Brúarási og svo í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Í dag býr hún í Kaupmannahöfn þar sem hún er að læra Global Nutrition and Health, eða alþjóðlega heilsu- og næringarfræði.
Karítas Hvönn segist ung hafa fengið áhuga á hvers konar bardagaíþróttum. „Ég var í alls konar íþróttum á Egilsstöðum: frjálsum, fimleikum, fótbolta og stundaði Crossfit undir lokin. Ég hef alla tíð heillast af bardagaíþróttum, allt frá því ég fór að horfa á bardagamyndir eins og Rocky sem krakki. Svo varð sportið vinsælt á Íslandi með tilkomu Gunnars Nelsons og svo varð það mér mikill innblástur þegar Sunna [Rannveig Davíðsdóttir] varð fyrsti kvenkyns atvinnumaðurinn í MMA-bardagaíþróttinni á Íslandi,“ segir Karítas Hvönn.
„Mjög langþráður og sætur sigur“
Karítas Hvönn byrjaði að æfa Muay Thai eftir að hún flutti til Danmerkur. „Það var aldrei neitt svona í boði heima á Egilsstöðum en undir lok árs 2016 fór ég í líkamsræktina Siam Athlete Nation hér í Kaupmannahöfn. Ég heillaðist strax og það varð ekki aftur snúið. Ég byrjaði reyndar í íþrótt sem heitir Grapling en var alltaf í Muay Thai líka. Þegar þjálfarinn minn fór að minnast á þann möguleika að fá bardaga í Muay Thai ákvað ég að setja allan minn fókus á það.
Fyrsti bardaginn minn var í september á síðasta ári en ég tapaði honum. Ég keppti svo aftur í byrjun nóvember og gerði jafntefli. Það var svo um þar síðustu helgi sem ég keppti á danska meistaramótinu og sigraði en það var því mjög langþráður og sætur sigur,“ segir Karítas Hvönn sem keppir í undir 60 kílóa flokki.
„Ótrúlega falleg og heillandi íþrótt“
Muay Thai er flokkuð sem átta útlima íþrótt, sem merkir að leyfilegt er að kýla og sparka ásamt því að nota olnboga og hné. Þó má aðeins berjast standandi en ekki fylgja eftir með höggum eftir að andstæðingurinn er fallinn í gólfið eins og í MMA.
En hvað er það sem heillar Karítas Hvönn svo við íþróttina? „Mér finnst þetta bara ótrúlega falleg og heillandi íþrótt. Þetta er virkilega góð hreyfing og góð örvun fyrir heilann. Svo er maður alltaf að æfa í félagsskap sem mér finnst skipta mjög miklu máli. Einnig heillar það mig hversu mikil virðing er borin í íþróttinni, bæði fyrir þjálfara og andstæðingnum.“
Vill grípa þau tækifæri sem bjóðast
Er Karítas Hvönn með einhver framtíðarmarkmið varðandi íþróttina? „Það væri auðvitað mjög skemmtilegt að keppa á Evrópumótinu. Svo er bara að grípa tækifærin sem ég fæ og hafa gaman af þessu öllu saman. Ég er rosalega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að keppa á svo stóru móti svona snemma á ferlinum, þakklát þjálfaranum mínum fyrir að hafa haft svo mikla trú á mér og hafa fengið að kynna ræktina mína.“
Ljósmynd: Danijel Bogdanic