„Ég mæli með þessu fyrir alla“

„Augljósasta ástæðan var sú að það var ekkert lyftingafélag var á Austurlandi, en ef einhver vill keppa í lyftingum þá þarf sá hinn sami að vera skráður í félag,“ segir Tinna Halldórsdóttir, meðstjórnandi í Lyftingafélagi Austurlands, um tilurð félagsins.


Lyftingafélag Austurlands (LFA) var stofnað á síðasta ári af áhugafólki um lyftingar. Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á lyftingum; bæði kraftlyftingum og ólympískum lyftingum.

Félagið er gildur aðili að ÍSÍ, LSÍ, Kraft og ÚÍA og félagsmenn þess því gildir til keppni á mótum þessara sambanda að uppfylltum reglum þeirra, en keppandi þarf að hafa verið skráður í mánuð í félag til að mega keppa á opnum mótum og í þrjá mánuði til að öðlast keppnisrétt á Íslandsmeistaramótum.

Um síðustu helgi var Íslandsmeistaramót unglinga og öldunga í klassískum kraftlyftingum og klassískri bekkpressu. Þar varð keppandi LFA, Gabríel Arnarsson Íslandsmeistari unglinga í -66kg flokki í báðum keppnum. Hann verður næst keppandi á Norðurlandamótinu í kraftlyftingum í lok september.

Meðlimum fjölgar jafnt og þétt
Tinna segir að meðlimum í LFA fjölgi jafnt og þétt. „Mikil gróska er í lyftingum og keppendum og iðkendum fjölgar á landsvísu og því löngu tímabært að Austurland eignist sitt eigið félag enda margir sem áhuga hafa á þessu sporti.“

Næstu mót Kraftlyftingasambandsins verða í október og nóvember þar sem fyrst fer fram bikarmót í klassískum kraftlyftingum og í nóvember bikarmót í kraftlyftingum í búnaði. LFA stefnir á að eiga keppendur á þessum mótum og félagið hvetur áhugasama til að slást í hópinn.“

Sjálf hefur Tinna sem er jógakennari verið að lyfta reglulega með jóganu. „Þetta er bara svo skemmtilegt, að finna hvað maður getur orðið sterkur, það er hægt að bæta sig ótrúlega mikið og lyftingar eru góð leið til þess að halda sér í þolanlegu formi. Ég mæli með þessu fyrir alla, en sérstaklega fyrir konur á öllum aldri og þá sem vinna sitjandi. Það er svo mikilvægt fyrir alla að viðhalda vöðvastyrk bara uppá almenn lífsgæði.“

Með aðstöðu í Neskaupstað og á Egilsstöðum
LFA er í samvinnu við líkamsræktarfyrirtækið Hraustur í Neskaupstað og er með sameiginlega aðstöðu þar sem LFA, Hraustur og Karatedeildin í Neskaupstað eru saman. Þar hefur félagið verið með námskeið og verður slíkt fljótlega. Fjarðabyggð styrkti félagið varðandi aðstöðu og er ómetanlegt að fá góðan stuðning þegar nýju félagi er komið á fót en koma þarf upp nauðsynlegum búnaði og aðstöðu. LFA fékk styrk úr Íþróttasjóði Rannís og var hann nýttur til búnaðarkaupa.

Á Egilsstöðum er LFA í samvinnu við CrossfitAustur og hefur lagt til fjármagn og búnað í sameiginlega lyftingaaðstöðu en lyftingar eru hluti af Crossfit íþróttinni og samlegðin því mikil. Fljótsdalshérað styrkti félagið til aðstöðusköpunar og einnig ÚÍA sjóðurinn Sprettur.

Aflraunakeppni á Útsæðinu
Eins og greint hefur verið frá mun LFA standa fyrir aflraunkeppni á Bæjarhátíðinni Útsæðinu á Eskifirði um helgina. Keppnin er fjögurra brauta tímaþraut og fer fram laugardaginn 18. ágúst og hefst klukkan 15:00. Veitt verðaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin í kvenna-, karla- og barnaflokkum. Skráning fer fram á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar