Eggert Gunnþór og Hlynur taka við af Mikael hjá KFA

Eggert Gunnþór Jónsson og Hlynur Bjarnason munu stýra liði Knattspyrnufélags Austfjarða í annarri deild karla út tímabilið. Gengið var frá starfslokum Mikaels Nikulássonar um helgina.

Þetta staðfestir Jóhann Ragnar Benediktsson, formaður KFA. Vinur Mikaels greindi frá því á X-reikningi sínum í gærkvöldi að Mikael væri hættur.

KFA hefur tapað þremur leikjum í röð, þeim síðasta gegn botnliði Reynis Sandgerði á fimmtudagskvöld. Jóhann segir að eftir það hafi stjórn sest yfir málin og um helgina verið gert samkomulag um starfslok við Mikael.

Jóhann segir að félagið muni ekki tjá sig nánar um ástæður starfslokanna en segir þær ýmsar. Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur samband Mikaels og leikmanna verið andlaust lengi.

Eggert Gunnþór Jónsson, sem snéri aftur austur fyrir tímabilið sem leikmaður og aðstoðarþjálfari, tekur við liðinu ásamt Hlyni Bjarnasyni sem hefur verið í liðsstjórn.

Mikael tók við stjórn liðsins fyrir tímabilið 2023. Undir hans stjórn varð liðið í þriðja sæti deildarinnar en það rétt missti af tækifærinu til að fara upp. Í tilkynningu sem KFA sendi frá sér í hádeginu í dag er honum þökkuð störf í þágu félagsins og að hafa tekið þátt í að "koma því á kortið" en það varð til við sameiningu liða Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og Leiknis fyrir tímabilið 2023.

KFA er í fjórða sæti annarrar deildar með 25 stig, stigi á eftir Völsungi og Víkingi Ólafsvík sem eru í öðru sæti. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst þá þykir árangur liðsins einnig undir væntingum þar sem stefnt hefur verið að koma liðinu upp um deild.

Liðið spilar á morgun gegn Augnabliki í átta liða úrslitum Fotbolti.net bikarsins.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar