„Eiginlega of gott til að vera satt“

Leiknir Fáskrúðsfirði vann ævintýralegan sigur á Grindavík í fyrstu deild karla í knattspyrnu í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Gestirnir voru 0-2 yfir þegar sex mínútur voru til leiksloka en fimm mörk voru þá enn í pottinum.

Það fyrsta skoraði bakvörðurinn Ásgeir Páll Magnússon. Sókn Leiknis upp vinstri kantinn virtist vera að fara út eftir slaka sendingu við vítateigshornið en Ásgeir Páll renndi sér í boltann svo úr varð ágætt skot sem fór inn á nærstönginni.

Grindvíkingar fóru í sókn, Leiknismenn unnu boltann og langur bolti frá hægri rataði í ennið á Stefáni Ómari Magnússyni og þar með var staðan orðin jöfn.

Aðeins voru tvær mínútur í næsta mark og það skoruðu Grindvíkingar. Þrír þeirra stóðu í kringum boltann með nægt tíma og pláss við vítateigspunktinn. Gunnar Þorsteinsson náði skoti sem fór í varnarmann Leiknis og þaðan í netið.

Tvö mörk frá Jesus

Heimamenn virtust frekar brotnir en héldu í sókn. Fyrst fengu þeir aukaspyrnu út til hægri við miðlínu. Hún var tekin löng inn á teiginn hægra megin, þaðan kom fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Jesus Sabater skallaði boltann inn og jafnaði á ný fyrir Leikni.

Aftur reyndu Grindvíkingar að sækja en töpuðu boltanum, Leiknismenn sendu langa sendingu fram þar sem vinstri bakvörður Grindvíkinga varð undir í baráttunni og braut illa af sér. Fyrir það fékk hann sitt annað gula spjald og Leiknismenn aukaspyrnu rétt utan vítateigs vinstra megin.

Leiknismenn eyddu nokkrum tíma í að tuða yfir fjarlægð varnarveggsins frá spyrnustaðnum. Þeim tíma var ekki vel varið nema hafi Jesus verið að stilla miðið, því hann smellti boltanum yfir vegginn og efst í nærhornið.

„Þetta var eiginlega pínu skrýtið, of gott til að vera satt. Fram að þessu var ekkert svona í spilunum en þetta datt með okkur og við gengum á lagið. Það var líka frábær karakter hjá strákunum að gefast ekki upp og sætta sig ekki við jafntefli heldur vilja vinna,“ sagði Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

Allt í einu gekk allt upp

Á þessum lokamínútum notaði Leiknisliðið mikið af háum, löngum sendingum sem varnarlínu Grindvíkinga gekk bölvanlega að eiga við. Ekki urðu bara til mörk upp úr þeim, heldur brutu Grindvíkingarnir ítrekað klaufalega af sér og fengu á þessum kafla þrjú gul spjöld.

„Kannski var þetta eitthvað sálfræðilegt líka, þeir hafa misst nokkra leiki niður í lokin. Allt í einu gekk allt upp hjá okkur og við fórum að gera það sem við ætluðum að gera frá byrjun, að koma boltanum inn í teiginn hjá þeim," sagði Brynjar.

Leiknir er í fjórða neðsta sæti deildarinnar með 10 stig eftir níu leiki. „Við vitum að við erum góðir á okkar degi og getum unnið alla en til þess verðum við að leggja okkur fram og hafa trú á verkefninu. Það væri ágætt að geta sýnt svona leiki líka á útivöllum.“

Mikið eftir enn

Hann segir margt geta breyst enn, opið er fyrir félagaskipti en Brynjar býst ekki við að Leiknisliðið breytist frekar. „Það eru örugglega einhver félög ósátt og vilja bæta við sig þannig að styrkur liðanna getur breyst mikið enn.

Ég reikna ekki við að okkar lið breytist. Okkar leikmenn hafa komið og fengið sumarstörf en það verður erfiðra þegar komið er fram í október. Mér finnst við líka vera með nógu gott lið til að halda okkur í deildinni.“

Íslandsmótið hófst ekki fyrr en seint í júní vegna Covid-19 faraldursins og hefur nú seinkað enn frekar þar sem fresta þurfti tveimur umferðum nú í lok ágúst vegna takmarkana. „Við vitum ekkert hvenær tímabilinu lýkur, það er ekki ljóst hvenær þessir leikir verða leiknir. Við bíðum eins og aðrir eftir því.“

Fjögur mörk úr vítum í sama leiknum

Í annarri deild karla tapaði Fjarðabyggð 2-4 fyrir Fjallabyggð á Eskifirði á föstudag. Guðjón Magni Magnússon og Vice Kendes komu Fjarðabyggð í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik. Gestirnir jöfnuðu áður en honum lauk og bættu svo við tveimur mörkum í þeim seinni.

Í þriðju deild karla var leikið í gær. Höttur/Huginn og Tindastóll gerðu 1-1 jafntefli á Vilhjálmsvelli. Þorlákur Breki Baxter kom Hetti yfir snemma í seinni hálfleik en Tindastólsmenn jöfnuðu úr vítaspyrnu þegar venjulegur leiktími var nýbúinn. Petar Mudresa, varnarmaður Hattar, fékk rautt spjald fyrir brotið.

Fimm mörk voru skoruð í leik Einherja og Augnabliks á Vopnafirði, þar af fjögur úr vítaspyrnum. Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörkin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og bættu svo því þriðja eftir um kortérs leik í þeim seinni. Sigurður Donys Sigurðsson minnkaði muninn á 70. mínútu og Todor Hristov skoraði í uppbótartíma. Bæði mörk Einherja voru vitaskuld af vítapunktinum.

Í annarri deild kvenna gerði Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir 3-3 jafntefli við ÍR í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Jóhanna Lind Stefánsdóttir kom heimaliðinu yfir á 24. mínútu en gestirnir voru 1-2 yfir í hálfleik. Jóhanna Lind jafnaði strax í byrjun seinni hálfleiks. Aftur komust gestirnir yfir en Freyja Karín Þorvarðardóttir jafnaði fimm mínútum fyrir leikslok.

Hér að neðan má sjá hinar umtöluðu lokamínútur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar