Einar Árni: Líst mjög vel á verkefnið hjá Hetti

Körfuknattleiksþjálfarinn Einar Árni Jóhannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning sem yfirþjálfari yngri flokka og þjálfari meistaraflokks karla hjá Hetti með Viðari Erni Hafsteinssyni. Hann segist telja þetta rétta tímann til að breyta um umhverfi og kveðst spenntur fyrir verkefnunum sem bíði hans eystra.

„Mér líst afar vel á verkefnið og er mjög spenntur fyrir því. Það verður krefjandi að starfa við að móta barna- og unglingstarf í ört vaxandi félagi og að festa það í sessi sem úrvalsdeildarlið. Ég held að í þá átt hafi verið tekið mikilvægt skref í vetur, þrátt fyrir niðurstöðuna. Ég tekst á við þetta með einum af mínum bestu vinum,“ segir Einar Árni.

Góð tilfinning fyrir Hetti og Egilsstöðum

Einar Árni er í hópi þekktustu körfuknattleiksþjálfara landsins, en undir hans stjórn varð Njarðvík Íslandsmeistari árið 2006. Hann hefur þjálfað meistaraflokka karla og kvenna þar auk karlaliða Breiðabliks og Þórs Þorlákshafnar.

Hann hefur einnig leitt yngri flokka starf í Njarðvík og hjá yngri landsliðum Íslands. „Ég hef aðeins kynnt mér starfsemina hjá Hetti. Við Viðar höfum talað mikið saman undanfarin ár og síðasta sumar kom ég austur til að þjálfa í körfuboltabúðum hjá Hetti. Ég hef hugmyndir til að vinna með. Samræming í starfinu og öflugur gagnabanki fyrir þjálfara félagsins til framtíðar verður meðal þess sem verður á mínum snærum.

Ég hef góða tilfinningu fyrir félaginu og samfélaginu. Ég hef heimsótt Egilsstaði á sumrin, mest í gegnum vinskap okkar Viðars og hef þar upplifað metnað og hug í fólkinu. Ég fullyrði að Höttur er félag í framför sem hefur áhuga á að taka næstu skref.

Að mörgu leyti minnir það mig á Þorlákshöfn, sem var frábær staður til að vera á, samfélag með hug og metnað til að bæta sig. Ég hef að vissu leyti séð eftir að flytja ekki þangað því það var álag að keyra á milli. Ég fann fyrir áhuga í minn garð frá Hetti og að ég hafði áhuga á að taka þátt þannig að lokum var þetta ótrúlega einföld ákvörðun þótt hún sé stór.“

Spenntur fyrir að breyta til

Einar Árni er byrjaður að koma sér inn í hlutina en gerir ráð fyrir að flytja austur í ágúst ásamt fjölskyldu sinni. „Við komum fimm eða sex af sjö manna fjölskyldu. Við erum ekki alveg búin að festa það niður. Ég er Njarðvíkingur og hef alltaf búið þar, utan fyrsta ársins míns í Kennaraháskólanum. Ég hef áður átt þess kost að fara út á land, en fannst það ekki henta vegna fjölskyldunnar. Nú eru yngstu börnin okkar eins og fimm ára, þau eru að byrja í skóla svo það er nú eða aldrei að prófa nýtt umhverfi.

Þetta er líka stórt skref fyrir mig, ég hef starfað í Njarðvíkurskóla í 20 ár og var þar áður í skóla í tíu ár. Mér hefur liðið vel þar og stjórnendur skólans reynst mér vel en ég hlakka til þess sem framundan er.“

Gekk hratt þótt ákvörðunin væri stór

Einar Árni hefur frá 2018 þjálfað í Njarðvík. Liðið slapp frá falli í lokaumferðinni fyrir viku og Einar Árni sagði þá strax að hann myndi vart halda áfram. Viðræðurnar við Hött gengu hratt fyrir sig. „Þetta er lítið land og ég var spurður af Hetti og öðru félagi út í mín samningsmál fyrr í vor. Ég sagði þeim að samningurinn minn væri að klárast og hefði hug á að breyta um umhverfi en ég væri bundinn í verkefnum til 10. maí. Ég gerði skólastjórnendum viðvart um að ég kynni að breyta til fyrir lok apríl en myndi ákveða endanlega eftir mótið.

Það kláraðist á mánudegi og strax á þriðjudegi heyrði ég í Hetti. Í raun lá ákvörðunin fyrir á miðvikudegi. Mér leist vel á það sem verið er að gera hjá Hetti og svo gengu aðrir hlutir fjölskyldunnar hratt fyrir sig. Við erum ekki búin að ganga frá öllum málum en erum að því.“

En er ekkert skref aftur á bak í að fara til liðs í fyrstu deild? „Nei, ég tók við Breiðabliki á svipuðum forsendum, liðið var þá í fyrstu deild en ætlaði upp eins og Höttur. Ég legg mitt inn í þá vinnu en við horfum til lengri tíma. Ég er ekki að rífa upp fjölskylduna fyrir eitt ár heldur langtímamarkmiðið sem er að gera gott barna- og unglingastarf enn betra og festa Hött í sessi sem úrvalsdeildarlið. Ég finn að það er sterkur hugur í að vinna þá vinnu.“

Viðar Örn, Ásthildur Jónasdóttir formaður körfuknattleiksdeildar Hattar og Einar Árni við undirritunina í Húsgagnahöllinni í dag. Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.