Einherji á toppnum: „Förum langt á liðsheildinni og leikgleðinni“

Einherja tókst með sigri á Hömrunum í fyrrakvöld að komast í efsta sæti C-riðils 1. deildar kvenna deildar kvenna. Sigurður Donys Sigurðsson, þjálfari liðsins, segir árangurinn óvæntan en leyndarmálið á bak við hann sé aðeins stelpurnar sjálfar og liðsheildin.

Sigurður segir Einherjakonur í raun ekki hafa búist við því að eiga möguleika á að vera í toppbaráttunni í sumar. „Þetta var aldrei markmiðið, það er óhætt að segja það. Markmiðið var alltaf að taka einn leik í einu, gefa allt í hvern leik og hafa gaman af. Við ætlum svo bara að sjá hverju þetta skilar okkur, hvar við endum á töflunni. Hver sigurleikur er bara bónus og gleði,“ segir Sigurður.

Lið Vopnfirðinga kemur sannarlega á óvart með árangrinum en önnur lið í riðlinum koma frá stærri stöðum. Sem dæmi má nefna að Fjarðabyggð, Höttur og Leiknir eru með sameiginlegt lið sem nú vermir næst neðsta sæti riðilsins. Lið Einherja er að auki mjög ungt en yngstu leikmenn þess eru aðeins 14 ára.

Sigurður þakkar stelpunum sjálfum og þeirra hæfileikum árangurinn en liðsandan segir hann einnig mjög góðann. „Stelpurnar eru virkilega duglegar, tilbúnar að leggja hart að sér og læra hratt á stuttum tíma, en þær voru flestar alveg óreyndar í 11 manna bolta. Svo er frábær mórall í liðinu, þær eru samhentar bæði innan sem utan vallar og það hefur skilað sér. Góður liðsandi fleytir manni langt í hópíþróttum,“ segir hann.

Sigurður segist líka þakka Dylian Kolev samstarfsmanni sínum við þjálfun liðsins hluta árangursins. „Hann er hrikaleg fær og býr yfir mikilli þekkingu á leiknum. Við erum skemmtilega ólíkir,“ segir Sigurður.

Leikurinn í fyrradag var mikill sigur fyrir Einherja, þær unnu Hamrana frá Akureyri 1-0 á heimvelli en síðasti leikur liðana hafði farið 10-0 fyrir Hömrunum. „Þetta var mjög taktískur baráttusigur, mikil þolinmæðisvinna í leiðinlegu veðri,“ segir Sigurður og heldur áfram. „Eitt af því sem var svo magnað við þennan leik var ótrúlegur fjöldi stuðningsmanna á vellinum sem hefur aukist mikið með þessari velgengni liðsins, það er ómetanlegt fyrir stelpurna.“

Barbara Kopasci hefur skorað 8 mörk í 7 leikjum Einherja til þessa og er mikill burðarstólpi í liðinu. Sigurður segir þó muna mikið um hverja einustu manneskju í tuttugu manna hópnum. „Barbara hefur gefið liðinu mikinn kraft og reynslu og hefur verið gríðarlega mikilvægt að fá hana. Sömuleiðis Viki Széles sem hefur verið frábær á miðjunni, algjör vinnuhestur fyrir liðið. Þær hafa gefið mikið af sér innan vallar sem utan og frábært fyrir þessar ungu stelpur að geta lært af þeim á hverjum degi. Mottóið okkar er að það er engin ein stærri en liðið, þær eru allar jafningjar og fara langt á liðsheildinni og leikgleðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.